„Það fór allt af stað og fólkið fór að góla“

20.06.2020 - 20:15
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Kristinn Þeyr Magnússon
Jarðskjálfi af stærðinni 5,3 fannst víða á Norðurlandi eystra. Hundruðir eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið. Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna á svæðinu.

Líkur á að stærri skjálftar fylgi í kjölfarið

Jarðskjálftinn varð um tuttugu kílómetra norðaustur af Siglufirði rétt upp úr klukkan þrjú. Mikil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðasta sólarhringinn með hundruðum skjálfta. Skjálfans varð vart víða. Tilkynningar bárust allt frá Húsavík vestur að Sauðárkróki. Skjálftinn varð á þekktu jarðskjálftasvæði, við flekaskil á Tjörnesbrotabeltinu. Haustið 2012 varð álíka stór hrina með nokkrum skjálftum yfir 5 að stærð. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að líkur séu á að stærri skjálftar geti fylgt í kjölfarið.

„Skjálfti af þessari stærð er nógu langt í burtu til að valda sem betur fer ekki mjög miklum usla en auðvitað finnst hann á mjög stóru svæði og við höfum líka fréttir af því að það hefur hrunið aðeins úr fjöllum. Ef skjálftarnir verða stærri þá eru meiri líkur að meiri geti hrunið úr fjöllum sem er eitthvað sem við höfum áhyggjur af. Það er líka áhyggjuefni að skjálftar þarna á þessum stað gætu verið vísbending um að það verði enn meiri virkni í kjölfarið og við erum þarna með misgengi og við vitum að þarna hafa orðið mjög stórir skjálftar, allt að stærð 7, og slíkir skjálftar geta haft mjög mikil áhrif. “

Ekkert tjón eða meiðsl á fólki

Óvissustigi almannavarna var lýst yfir á fimmta tímanum. Samhæfingarmiðstöð verður ekki virkjuð að svo stöddu. Engar tilkynningar hafa borist um meiðsl á fólki eða tjón af völdum skjálftans að sögn Rögnvalds Ólafssonar, aðalvarðstjóra almannavarnardeildar.

„Það er búið að auka við vöktun á svæðinu. Veðurstofan fylgist náttúrulega mjög grannt með því sem er að gerast þarna og lætur okkur vita ef það verða einhverjar breytingar. Ef það koma stærri skjálftar og ég tala nú ekki um ef það verður tjón eða fólk fer að slasast þá verður stærri virkjun hjá okkur á svæðinu.“

Almannavarnir hvetja íbúa til að hafa varann á undir bröttum hlíðum og gera viðeigandi ráðstafanir.

„Núna er í sjálfu sér gott tækifæri fyrir fólk á þessu svæði og í rauninni annars staðar á landinu, fólk sem býr við jarðskjálftahættu,  að nota tækifærið og fara yfir viðbúnað heima hjá sér, hvort að það sé allt saman vel fest og jarðskjálftahelt. Það eru mjög góðar leiðbeiningar á heimasíðu almannavarna, almannavarnir.is.“

„Alveg ótrúleg upplifun“

Skjálftinn greinilega víða og fólki var brugðið. Úlla Árdal, fréttamaður RÚV á Norðurlandi tók nokkra tali.

Selma og Anna Sigurbjörnsdætur voru á tjaldsvæðinu á Hauganesi þegar skjálftinn reið yfir.

„Við sátum bara hér nokkur saman að drekka kaffi og svo kemur þetta svona yfir í bylgju. Við vorum svolítið, við vissum ekki alveg hvort þetta var hún að hreyfa sig í skjánum eða hvort þetta var annar skjálfti. Svo töluðum við við nágranna á svæðinu og þau fundu vel fyrir honum. Manni var ekki alveg sama. “

Sólborg Friðbjörnsdóttir, var í golfskálanum í Svarfaðardal.

„Ég var nú bara hérna inni í skálanum ásamt Jóni Halldórssyni frænda mínum. Við vorum að spjalla saman þegar gusan kom á okkur og við vissum ekkert hvað væri að gerast. Skálinn gekk í bylgjum og við hugsuðum: Er hann að fara niður á völl? Því þetta var alveg ótrúleg upplifun.“

Sigrún María Olsen var í sundi á Ólafsfirði.

„Við vorum í sundi á Ólafsfirði. Við vorum í steinsteyptum potti svo varð allt eins og hlaup bara, það fór allt á stað og fólkið fór að góla. Þetta var pínu sjokk. Maðurinn minn var í stóru lauginni og skildi ekki neitt, fólk fór að góla bara.

-Fólk hefur verið hrætt?

„Já þeim var ekkert sama sko. Það voru sumir sem stóðu upp og fóru að vitja barnanna, þannig að þetta var smá sjokk.“

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi