Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stytta af herforingja rifin niður í Washington

20.06.2020 - 06:36
Mynd: EPA-EFE / EPA
Mótmælendur rifu niður styttu af herforingja Suðurríkjasambandsins í Washingtonborg í gærkvöldi og kveiktu í henni. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna fordæmdi verknaðinn og sakaði lögregluna um að sinna ekki skyldustörfum sínum.

Styttan var af Albert Pike, sem var herforingi Suðurríkjasambandsins árin 1861 og 1862. Hún er eina styttan af Suðurríkjahermanni í höfuðborginni. Fjöldi mótmælenda tók sig saman og fleygði reipi yfir styttuna, og reif hana niður í sameiningu.

Eftir að fregnir bárust af atvikinu skrifaði Trump á Twitter að það ætti tafarlaust að handtaka þá sem rifu niður styttuna. Þeir væru blettur á samfélaginu.

Fjöldi kom saman í bandarískum borgum í gær til þess að minnast þess að 155 ár eru liðin frá því að þrælahald var bannað í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Í höfuðborginni safnaðist fólk saman við minnismerki Lincolns og nærri Hvíta húsinu.

Styttur voru einnig rifnar niður í Norður-Karólínu. Þar voru teknar tvær styttur af minnismerki við þinghús ríkisins. Að því loknu gengu mótmælendur með þær og hengdu á ljósastaura nærri þinghúsinu.

Dagleg mótmæli hafa verið víða í landinu síðasta tæpa mánuðinn, eftir að svartur maður var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis 25. maí. Þar hefur óþörfu ofbeldi lögreglu í garð svarts fólks verið mótmælt, sem og kerfisbundnum rasisma í Bandaríkjunum. Nokkur minnismerki um hermenn og herforingja í Suðurríkjasambandinu hafa verið rifin niður af mótmælendum, eða fjarlægð af yfirvöldum. Þrjár myndir af þingmönnum á Bandaríkjaþingi voru teknar niður af göngum þess í vikunni. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, skipaði svo fyrir. Þingmennirnir höfðu allir gegnt herþjónustu fyrir Suðurríkjasambandið. Pelosi hefur einnig beðið um að ellefu styttur verði fjarlægðar úr þinghúsinu.