Fréttastofu bárust tilkynningar um að allt hafi leikið á reiðiskjálfi meðal annars á Dalvík, Húsavík, Hofsósi, Siglufirði, Akureyri og í Hörgársveit.
Jarðskjálftahrina hefur verið á Tjörnessflekabeltinu frá því í gær og náði hún hámarki rétt eftir þrjú. Fjöldi minni skjálfta, stærri en þrír, urðu í kjölfarið.
Aðalsteinn Árni Baldursson er á Húsavík og sagði hann við fréttastofu að skjálftinn hefði verið sterkur, fólki væri mjög brugðið en ekkert virtist hafa skemmst, í fljótu bragði.
Lögregla á Akureyri segir engin sérstök útköll hafi verið þar vegna skjálftans og að fólk virðist almennt rólegt. Á lögreglustöðinni var búist við meiri viðbrögðum en vegna veðurblíðu er fólk mikið útivið. Það kunni að vera ástæða lítilla viðbragða almennings. Svipaða sögu hafði lögregla á Blönduósi að segja.
Bjarni Magnússon fyrrverandi hreppstjóri í Grímsey sagðist hafa fundið högg líkt og ekið hefði verið á húsið hans. Engar skemmdir væru sjáanlegar innan- eða utanhúss. Íbúum í eynni væri lítt brugðið enda alvön jarðhræringum.
Fréttin var uppfærð 16:03