Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hækkað vöruverð í Dalabyggð ógnar byggðarþróun

20.06.2020 - 12:22
Myndir teknar með dróna.
Búðardalur í Dalabyggð Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Sveitarstjóri Dalabyggðar segir að verð hafi hækkað í einu matvöruversluninni í sveitarfélaginu líkt og annars staðar. Hann vill að hið opinbera skerist í leikinn.

 

Sveitarstjóri Skútustaðahrepps sagði frá því í fréttum um síðustu helgi að verðhækkanir í einu matvörubúðinni í Mývatnssveit væri eins og blaut tuska í andlit Mývetninga. Kristján Sturluson, sveitarstjóri Dalabyggðar, bendir á að sama breyting hefur orðið þar.

Fyrir um mánuði var verslun Samkaupa í Búðardal breytt úr Kjörbúð í Krambúð. Því fylgdi lengri opnunartími og hærra vöruverð.

„Það er mjög mikil óánægja meðal íbúa hérna með þessa breytingu. Okkur virðist að þetta sé breyting sem að miði jafnvel meira við þarfir ferðamanna heldur en þarfir heimafólks,“ segir Kristján.

Vill að opinbera skerist í leikinn

Dalamenn þurfa nú að keyra í um klukkutíma til Borgarness til að versla matvöru á betri kjörum. Kristján segir byggðaþróun í Dalabyggð ógnað fyrir vikið. Sveitarstjórn hefur einnig gagnrýnt þessar breytingar og kallað eftir því að Samkaup hækki ekki vöruverð. Svör hafa ekki borist þaðan.

Kristján telur að hið opinbera ætti að meta hvort skerast þurfi í leikinn.

„Til dæmis Byggðastofnun taki þetta til alvarlegrar skoðunar, þessa þróun. Hvernig sé hægt að bregðast við, hvað sé til ráða. Maður er auðvitað hálf ráðalaus, en það verður að ávarpa þessa þróun.“