Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Guðni nýtur enn yfirgnæfandi fylgis

20.06.2020 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti, nýtur 92 prósenta fylgis samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið. Átta prósent styðja Guðmund Franklín Jónsson.  

Miðflokksmenn langdyggustu stuðningsmenn Guðmundar 

Enn er ljóst að kjósendur Miðflokksins eru langlíklegastir til að styðja Guðmund. 48 prósent þeirra styðja Guðmund, en þó hefur stuðningur þeirra við hann farið örlítið dvínandi á síðustu vikum, sjá hér. 

Þó sækir hann einnig fylgi til 28 prósenta kjósenda Flokks fólksins. Stuðningur við hann er ýmist lítill eða nánast enginn meðal kjósenda annarra flokka á Alþingi. Fréttablaðið greinir frá. 

Þá virðast karlar frekar styðja Guðmund en konur, 13 prósent karla styðja Guðmund en aðeins 3 prósent kvenna. 

Stefnir í mikla kosningaþátttöku 

Í könnuninni segjast 72 prósent alveg örugglega ætla að kjósa, fjórtán prósent telja það mjög líklegt og 5,5 prósent líklegt. Samkvæmt niðurstöðunum gæti því stefnt í tæplega 92 prósenta kosningaþátttöku. Stuðningsfólk Guðna er líklegra til að mæta á kjörstað en Guðmundar.  

Könnunin var sem áður segir gerð af Zenter rannsóknum fyrir Fréttablaðið. Hún var gerð dagana 15. til 18. júní síðastliðinn og send til 2.500 manna úrtaks, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 50,5%. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV