Fararsnið útskriftarnema Listaháskólans

Mynd: RÚV / Menningin

Fararsnið útskriftarnema Listaháskólans

20.06.2020 - 09:12

Höfundar

Sunna Ástþórsdóttir veltir fyrir sér útskriftasýningum Listaháskóla Íslands og myndlistarnámi almennt.

Sunna Ástþórsdóttir skrifar:

Ár hvert stendur hópur nýútskrifaðra listamanna á flekaskilum: Í einu ljúka þau áralöngu námsferli, þar sem þeim hefur gefist rými til að einbeita sér, uppgötva og læra í næði, og stíga inn í nýjan veruleika – með nýjum tækifærum og áskorunum. Útskriftahátíð Listaháskólans fór fram um miðjan júní og voru það bakkalárnemar í myndlist sem tóku stökkið fyrst með útskriftarsýningu sinni á Kjarvalstöðum. Sýningin stóð aðeins yfir í fimm daga, frá 13. til 17. júní, en markaði þó hvorki endalok né nýtt upphaf, heldur frekar ákveðið augnablik þar sem glaðst er í sameiningu yfir aðdráttarafli listarinnar og ferlinu framundan.

Titill sýningarinnar, Fararsnið, nær fullkomlega utan um þetta augnablik. Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar segir meðal annars í hugleiðingum sínum að sýningin gefi „skýr merki um fararsnið kynslóðar komandi listamanna“ og það er alveg satt. Nú er mikilvægt að við hin fylgjumst vel með, því með hverri kynslóð listamanna birtast ný sjónarhorn, nýjar hugmyndir og áherslur, ný orð, rýni og skilningur. Myndlistarmennirnir 20 sem sýndu á Kjarvalstöðum eru að taka á flug, ekki beint flug heldur fer það í allar áttir með viðkomu á óvæntustu stöðum.

Það er líka oft það sem við væntum af listinni – og útskriftasýningum almennt. Að þær komi okkur algjörlega á óvart, og að verkin séu glóðheit, fersk og fullunninn. Það er undirliggjandi pressa á listamönnunum að skila sinni bestu frammistöðu til þessa, og að auki er útskriftarsýningin almennt snúinn rammi. Það má segja að oftar samanstanda útskriftarsýningar af mörgum minni einkasýningum, þar sem hvert verk og upplifun verkanna beinist aðeins að þeim, í stað þess að tengjast hinum verkunum á sýningunni, eins og oftar er tilfellið á annars konar hópsýningum.

En BA listamenn ársins tóku af stað án þess að ljúka samtalinu. Verkin þeirra voru opin í báða enda, skildu mikið eftir sig en á sama tíma skynjaði ég að ýmislegt væri eftir ósagt. Það er bæði til góðs og galla, en sem sýningargestur létti mér að sjá verk listamanna sem eru opinskátt ennþá leitandi. Fyrir mér er það eitt helsta einkenni góðs listamanns – að þora að leita. Öryggið sóttu þau svo í sígild viðfangsefni listarinnar, svo sem samband manns og náttúru, forgengileika, bresti mannsins, hringrás, minni, sviðsetningu sjálfsins og vald.

Á sýningunni var allt svolítið í belg og biðu. Í fyrsta lagi var erfitt að átta sig á hver átti hvaða verk. Hverju verki fylgdi stuttur texti en mér fannst erfitt að tengja saman verk og texta. Kannski er það eðlilegt þegar svona mörg verk mætast í sama rými en mér fannst textarnir oft staðsettir langt frá verkinu sem þeir tilheyrðu. Einnig kom út vegleg sýningarskrá, eða árbók bakkalárnema. Hún virtist þó ekki tengjast sýningunni beint en þar birtust önnur verk en voru til sýnis á Kjarvalsstöðum, og þar af leiðandi líka aðrir textar. Saman mynduðu sýningin og bókin eina heild, og þar sem sýningin stóð ekki yfir nema í 5 daga öðlast vinna listamannanna ennþá meira gildli með útgáfunni. Þar að auki virtust BA listamenn ársins tregir við að njörva niður ákveðin hugtök eða skilgreiningar og eins og ég kom að hér áður, vísa verkin í eitthvað áframhald, opin mengi. Þegar þau fjalla um tímann gerist allt samstundis, hringrásir halda endalaust áfram og lokast aldrei. Þau treysta ekki því sem virðist, reyna að efnisgera hið ósnertanlega, færa hið ósýnilega fram á sjónarsviðið og leita eftir jafnvægi, núllpunkti. Á sama tíma mátti nema í verkunum meðvitund um að það er bara óskhyggja, því heimurinn í dag er mengaður af því sem á undan hefur komið.

Og heimurinn hefur líka mótandi áhrif á myndlistarmenn, eins og aðra. Aðdragandi sýningarinnar var um margt óvenjulegur. Þá er ég ekki að vísa í sjálft námið, sem er frekar fastmótað, heldur þá óvæntu og bröttu beygju sem árið 2020 tók. Í nánast einni andrá stóðu nemendur án aðgangs að vinnustofu og hittu kennarana sína og samnemendur aðeins í gegnum tölvuskjá. Það gefur auga leið að það er erfitt að færa allan sinn vinnuferil yfir á netmiðla og ræða efni og efniskennd í gegnum fjarfundarforrit frekar en beina snertingu. Meistaranemar í myndlist við listaháskólann í Osló brugðust við þessum vanda sem blasti við flestum listnemum, á skarpan og glettnislegan hátt með verkefninu I don’t have a clue how to become an internet based ceramic artist, sem þýðist svona: Ég hef ekki glóru um það hvernig ég get orðið keramik-listamaður á netinu. Í formi texta, hljóðbrota og mynda settu þau saman prentaða útgáfu með hugleiðingum um það tómarúm sem myndaðist þegar faraldurinn brá fæti fyrir námið þeirra og þau gátu ekki lengur unnið með áþreifanleg efni eða kynnt á réttum forsendum. Reyndar má kenna faraldursins í útskriftarverkefnum flestra listaháskóla. Á Norðurlöndunum hafa sýningarnar til að mynda ýmist færst út í almannarými eða á internetið, eða frestast. Listaháskólinn á Íslandi brást líka við á eigin hátt. Yfirleitt hafa útskriftarsýningarnar og verkefnin farið fram á svipuðum tíma á vorin en núna dreifist dagskráin og lýkur ekki fyrr en í nóvember á þessu ári. Ef allt gengur að óskum.

Útskriftarsýningar eru ekki síður markverðar því á þeim mæta verkin áhorfendum, og það yfirleitt inni á listastofnun. Ákveðin hefð er fyrir því að BA sýningarnar fari fram í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur, stofnun sem hefur gegnt lykilhlutverki í myndlistarlífinu. Ég er ánægð með að hafa getað farið og séð verkin með eigin augum, og heilt yfir litið finnst mér ég ekki finna fyrir áhrifum faraldursins í verkunum, nema hvernig listamennirnir tóku hverfulleika augnabliksins opnum örmum. BA listamenn ársins bera með sér kæruleysislegt sjálfsöryggi, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja, og þau bættu upp fyrir stutta sýningu með fullt af líflegum gjörningum. Það er líka staðreynd, að þessar sýningar útskriftarnema eru yfirleitt ekki sérstaklega langar hér á landi og oft standa þær aðeins yfir í tvær vikur. Auðvitað er mikilvægt fyrir upprennandi listamenn að fá að sýna list sína á opinberum sýningarstað, og kynnast þeim vinnuferlum sem unnið er eftir í slíkri stofnun. Þetta eru líka yfirleitt mest sóttu sýningarnar, og fyrir utan það að taka virkan þátt í að auka sýnileika komandi kynslóða listamanna, auðgast þessar stofnanir á athyglinni sem fylgja sýningunum. Það eru jákvæðir og neikvæðir pólar á öllu, og ég sem lít á útskriftarsýningarnar sem ákveðinn hápunkt ársins, velti því fyrir mér hvort við áhorfendur gætum fengið að njóta sýninganna lengur í öðrum húsakynnum. Kannski myndi önnur staðsetning jafnvel skila sér í meira frelsi listamannanna, ennþá sterkari sögnum og minni varkárni.

En fögnuðurinn heldur áfram. Útskriftarverkefni annarra námsstiga og deilda innan Listaháskólans munu halda áfram að spretta fram út árið, á hinum ýmsu stöðum, og þannig munum við almenningur  halda áfram að fá vísbendingar um það hvert stefnir. Afturábak eða áfram, upp eða niður. Eða allar áttir á sama tíma.