
Átök um yfirráð á jemenskri eyju
Spennan hefur aukist jafnt og þétt síðan í apríl, þegar STC lýsti sjálfsstjórn á þeim svæðum sem hreyfingin hefur náð yfirráðum yfir í Jemen. Þýska fréttaveitan DPA hefur eftir embættismanni að átökin hafi byrjað þegar STC sendi stóra þungvopnaða sveit til þess að taka yfir Hadibou, stærstu borg Socotra.
Fahd Kafayen, sjávarútvegsráðherra Jemens, sakar STC-liða um að leggja borgina í rúst. Sprengjuárásum þeirra verði að linna, segir í yfirlýsingu ráðherrans. Enn hefur ekki borist opinber yfirlýsing frá stjórnvöldum vegna átakanna, né heldur frá STC.
Snerust gegn stjórninni í ágúst
STC og stjórnarherinn börðust saman gegn uppreisnarhreyfingu Húta í Jemen. STC snerist hins vegar gegn forsetanum Abd-Rabbu Mansour Hadi í ágúst í fyrra þegar hreyfingin tók völdin í hafnarborginni Aden. Aftur tóku STC og stjórnvöld saman höndum eftir samningaviðræður í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, þar sem var meðal annars samið um að mynda sameinaða stjórn. Þrátt fyrir það héldu skærur þeirra á milli áfram, og hefur spennan aukist jafnt og þétt síðan í apríl, eins og áður segir.
Borgarastríðið í Jemen hefur nú staðið yfir í hálft sjötta ár. Um hundrað þúsund almennir borgarar hafa fallið í átökunum og milljónir orðið að flýja heimili sín. Ástand mannúðarmála er í algjörum lamasessi og óttast alþjóðasamtök að hungursneyð vofi yfir í landinu.