Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna skjálftans

20.06.2020 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Staðfest stærð skjálftans sem varð rétt eftir klukkan þrjú í dag er 5,3. Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna skjálftanna. Margir eftirskjálftar um og yfir þrír fylgdu í kjölfar skjálftans. Ómögulegt er að segja til um hvernig eða hvenær þessi hrina endi.

„Skjálftinn varð tuttugu kílómetra norðaustur af Siglufirðir á sama svæði og skjálftahrinan hefur verið í gangi frá því í gær. Honum hafa fylgt fjölmargir eftirskjálftar,“ sagði Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands við fréttastofu.

Eftir yfirferð mælinga hjá jarðvárvöktun Veðurstofunnar kom í ljós að jarðskjálftinn var ekki eins öflugur og talið var í fyrstu. Hann reyndist 5,3 en ekki 5,6.

Fólk fann fyrir skjálftanum víða um landið og var mörgum brugðið. Fréttastofa hefur ekki vitnsekju um að skjálftinn hafi valdið slysum eða tjóni.

Viðbúið er að stærri skjálftar geti orðið á þessu svæði í skjálftahrinunni og vaktar Veðurstofan svæðið.

Fréttastofa óskar eftir myndum og myndskeiðum tengdum skjálftanum. Lesendur eru beðnir að senda myndefni á [email protected].

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi