Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Útgöngubann í Tulsa vegna komu Trumps

19.06.2020 - 16:02
Mike Pellerin waves a Donald Trump campaign flag near a barricade in downtown Tulsa, Okla., ahead of President Donald Trump's Saturday's campaign rally Friday, June 19, 2020. (Mike Simons/Tulsa World via AP)
Stuðningsmaður Donalds Trumps gengur fram hjá griðingu sem komið hefur verið upp vegna fundarins á morgun. Mynd: AP - Tulsa World
Útgöngubanni hefur verið lýst yfir í Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum næstu kvöld og nætur vegna fyrirhugaðs kosningafundar Donalds Trumps forseta á morgun. Borgarstjórinn óttast að neyðarástand skapist vegna mótmæla gegn þeirri ákvörðun forsetans að halda fundinn í borginni.

G.T. Bynum borgarstjóri gaf út tilskipun um útgöngubannið í gærkvöld. Það gekk í gildi þegar í stað. Að hans sögn er mikil spenna í borginni vegna fundar Trumps og stefnir í neyðarástand vegna óeirða þeirra sem vilja mótmæla fundinum og fundarstaðnum.

Í Tulsa voru framin óhugnanleg illvirki árið 1921 þegar hópur hvítra manna réðst með alvæpni inn í hverfi vel stæðra svartra borgarbúa þar sem um það bil þrjú hundruð féllu og allt að tólf hundruð fyrirtæki og íbúðarhús voru eyðilögð. Þar af leiðandi þykir það með eindæmum óheppilegt að Trump skuli velja Tulsa sem fundarstað þegar svo skammt er liðið frá því að lögreglumaður varð George Floyd að bana í Minneapolis.

Búist er við að hundrað þúsund manns sæki kosningafund Trumps, sem er sá fyrsti sem hann efnir til í þrjá mánuði. Útgöngubannið gildir frá tíu að kvöldi til sex að morgni. Lögreglan í Tulsa sagði í dag að hún ynni að því að gera fundarstað forsetans öruggan, enda væri koma hans til borgarinnar einstæður atburður.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV