Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þungar og snúnar samningaviðræður“

19.06.2020 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Samningafundur hjúkrunarfræðinga og ríkisins hjá ríkissáttasemjara hófst klukkan 10 í morgun og stendur enn. Verkfall hjúkrunarfræðinga hefst að óbreyttu eftir helgi.

Aðalsteinn Leifsson segir í samtali við fréttastofu í hádeginu að samningaviðræðurnar séu snúnar. 

„Þetta eru mjög þungar og snúnar samningaviðræður undir mjög erfiðum kringumstæðum. En við sitjum hér og samninganefndirnar vinna mjög vel saman. Við eigum virkt og gott samtal og erum staðráðin í að snúa við öllum steinum og sjá hvort við getum ekki fundið einhverjar lausnir,“ segir Aðalsteinn. 

Aðalsteinn segir að málið sé í algjörum forgangi og að samningsaðilar muni sitja við eins lengi og vænlegt sé til árangurs. 

„Dagurinn er undir og helgin líka ef því er að skipta. Samninganefndirnar finna mjög þétt fyrir þeirri ábyrgð sem þær hafa. Þannig að við leggjum okkur öll fram og gefum okkur allan þann tíma sem þarf.“

Aðalsteinn segist viðbúinn því að viðræðurnar haldi áfram fram á helgi. „Ef það er árangursríkt, þá kalla ég fólk á fund,“ segir hann.

Uppfært kl. 15:10

Samningafundur hjúkrunarfræðinga og ríkisins stendur enn yfir. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV