Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Það verður þjóðhátíð í Eyjum í einhverri mynd

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Þjóðhátíð verður haldin í Vestmannaeyjum í einhverri mynd, segir framkvæmdastjóri ÍBV. Bæjarstjóri segir að þjóðhátíðin verði þó minni í sniðum en áður. Eitt er þó frágengið og það er að Ingólfur veðurguð mun stýra brekkusöng.

Vestmannaeyingar hafa haldið Þjóðhátíð í tæp hundrað og fimmtíu ár en núna setur samkomubann strik í reikninginn og krafa um lokun skemmtistaða klukkan ellefu á kvöldin.

„Við erum með takmarkanir, erum reyndar að fara í 500 en það gerir lítið fyrir Þjóðhátíð eins og við höfum séð hana og hugsað hana og þessi sautján þúsund manna samkoma sem er stórkostleg,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. 

„Við erum að vinna að því að teikna upp einhverjar sviðsmyndir um hvernig við getum framkvæmt þessa hátíð undir þeim reglum sem okkur eru settar á hverjum tíma fyrir sig. Við stefnum að því að gera í það minnsta eitthvað,“ segir segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV. 

„Ég held enn þá að hún verði haldin með einhverjum hætti en ég sé ekki fyrir mér þessa venjulegu þjóðhátíð sem þú ert að spyrja mig um,“ segir Íris.

Rætt hefur verið um að tak-markanir á stórum við-burðum í sumar miðist við 2000 manns.

„Ef það verður 2000 manna samkomubann þá er alveg ljóst að það verða ekki fimmtán þúsund manns á sama tíma inni í Herjólfsdal,“ segir Hörður.

„Menn eru bara enn þá að athuga þetta en ég á nú von á því að lokaákvörðunin verði tekin núna í júní. Mér finnst það líklegt,“ segir Íris. 

„Það er alveg ljóst að ef það verður engin Þjóðhátíð þá er félagið að tapa 60-70 prósentum af sínum tekjum sem hafa farið í barna- og unglingastarf,“ segir Hörður.

Hvað eruð þið búin að selja marga miða á Þjóðhátíð?

„Forsalan fór af stað í mars og fór vel af staða. Ég er ekki með töluna á hreinu en það er búið að selja töluvert magn,“ segir Hörður.

Einhver þúsund?

„Einhver þúsund miða,“ segir Hörður.

Í öllum sviðsmyndum þjóðhátíðarnefndar er gert ráð fyrir brekkusöng.

„Já, við getum orðað það þannig að Ingólfur veðurguð mun halda brekkusöng hvað sem tautar og raular,“ segir Hörður.