Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það verður allt, allt annað að taka við af okkur“

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Drög að skýrslu um stjórnsýslu loftslagsmála eru ekki áfellisdómur heldur leiðarljós. Þetta er mat umhverfisráðherra. Þegar hafi verið brugðist við hluta gagnrýninnar í drögunum. Loftslagsráð bað Capacent að vinna skýrsluna en ráðherra pantaði hana. Loftslagsráð á nefnilega bæði að veita stjórnvöldum aðhald og vinna verkefni fyrir ráðherra, þetta tvöfalda hlutverk ráðsins er eitt af fjölmörgum atriðum sem var gagnrýnt í skýrsludrögunum.

Í stuttu máli lýtur gagnrýnin að því að stjórnsýsla í loftslagsmálum sé veik og óskilvirk og það skorti samræmda heildarsýn. Þá liggi ekki fyrir hvernig Ísland hyggst standa við markmið Parísarsamkomulagsins og loforð um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. 

Sjá umfjöllun Spegilsins í gær: Engin raunveruleg stjórnsýsla í loftslagsmálum

Stjórnkerfið þarf að þola gagnrýni

„Ég held þetta sé ekki áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, þetta eru leiðbeiningar um hvernig við getum gert hana betri. Við þurfum að nálgast það af auðmýkt, stjórnkerfið þarf að þola gagnrýni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. 

Hann segir að stjórnvöld þurfi að skoða niðurstöðurnar vandlega og nýta þær til að gera betur í stjórnsýslu loftslagsmála. „Enda var leikurinn til þess gerður. Þegar ég setti Loftslagsráð á fót 2018 var þetta fyrsta verkefnið sem ég fól þeim að vinna. VIð megum alls ekki verið hrædd við gagnrýni og þær breytingar sem við mögulega þurfum að gera eigum við auðvitað að gera til að efla starf okkar í loftslagsmálum, enda er það eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar, við höfum sett stóraukna pólitíska vigt á það og aukið fjármagn inn í málaflokkinn.“ 

Áherslur ríkisstjórnarinnar aflgjafi

Í skýrsludrögunum er sérstaklega minnst á að forsætisráðuneytið hafi sýnt loftslagsmálum áhuga og tekið að sér aukið samhæfingarhlutverk, fjármálaráðuneytið er aftur á móti sagt hafa komið lítið að samræmingarvinnu. Guðmundur Ingi segir að samstarf umhverfis- og fjármáluráðuneyta hafi verið gott. Margar aðgerðir í loftslagsmálum heyri undir það, svo sem allt sem viðkemur skattaumhverfi og ívilnunum. 

Guðmundur Ingi segir að áhersla ríkisstjórnarinnar á loftslagsmálin hafi verið ein af ástæðum þess að hann ákvað að ganga til liðs við hana á sínum tíma. Lengi hafi málaflokkurinn haft lítið vægi og áhuginn á honum að mestu verið bundinn við umhverfisráðuneytið en það sé breytt. „Og það er gríðarlega mikill aflgjafi fyrir okkur sem viljum lyfta þessum málaflokki á hærri stall og draga vagninn þannig að við náum okkar skuldbindingum bæði árið 2030 og 2040.“

Parísarmarkmiðið fyrst svo kolefnishlutleysi

Mynd með færslu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, auðlinda- og umhverfisráðherra. Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Það kemur fram í drögunum að það liggi ekki fyrir hvernig skuli skilgreina kolefnishlutleysi. Það sé óljóst hvaða losun teljist vera innan okkar landamæra og hvaða losun teljistst vera af mannavöldum. Þá liggi ekki fyrir hvernig best sé að ná kolefnishlutleysismarkmiðinu með hagfelldustum hætti fyrir íslenskt samfélag. 

Þegar það er búið að setja markmið um að ná því fyrir árið 2040 er þá ekki grundvallaratriði að það liggi fyrir hvernig eigi að gera það? „Jú, það er grundvallaratriði og við náttúrulega lögðum fram okkar aðgerðaáætlun 2018 sem er í endurskoðun núna þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að það sé ekki hægt að sýna fram á þetta. Varðandi kolefnishlutleysið þá erum við ekki komin eins langt, við höfum látið 2030 markmiðin ganga fyrir en höfum samt hafið vinnu að því og meðal annars kallað eftir svona leiðsögn frá Loftslagsráði þannig að þetta er eitt af verkefnunum sem bíða okkar núna, að skilgreina betur með hvaða hætti við ætlum að verða kolefnishlutlaust samfélag og hvernig við ætlum að fasa út mengunarvöldum sem valda loftslagsbreytingum,“ segir Guðmundur Ingi.  

Þegar búinn að bregðast við 

Guðmundur Ingi segist þegar hafa brugðist við gagnrýninni skýrsluhöfunda að hluta með nýjum loftslagslögum sem samþykkt voru síðastliðið vor. Þar er meðal annars kveðið á um að vinna þurfi vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga og sú skylda lögð á herðar ríkisins að vinna aðgerðaáætlun um samdrátt í losun  Þá hafi þar verið kveðið á um loftslagsáætlanir sveitarfélaga.  Hann segir að aukið fjármagn hafi verið sett í stjórnsýsluna og fleira starfsfólk ráðið til að sinna loftslagsmálum, í ráðuneytinu og hjá stofnunum þess, til dæmis Umhverfisstofnun og Landgræðslunni. Þá nefnir hann glænýjar breytingar á skipuriti umhverfisráðuneytisins sem tóku gildi í byrjun júní. Í stað þess að loftslagsmálin séu dreifð innan ráðuneytis heyra þau nú undir nýja skrifstofu loftslagsmála og nýja skrifstofu alþjóðamála og samþættingar. „Og afskaplega mikilvægt að mínu mati að samþætta bæði loftslagsmálin inn í önnur umhverfismál og inn í málaflokka í öðrum ráðuneytum. Þessar breytingar eru ætlaðar til að bæta framkvæmd loftslagsmála og síðan samþættingu út á við.“

Ábyrgð skýrð í nýrri aðgerðaáætlun

Í skýrsludrögunum er talað um mikilvægi þess að skýra verka- og ábyrgðaskiptingu milli ráðuneyta. Guðmundur telur verkaskiptinguna ágætlega skýra, þó hún virðist kannski ekki vera það í dreifðum málaflokki. Nú er verið að endurskoða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, þar segir hann unnið að því að skýra ábyrgð þeirra sjö ráðuneyta sem að henni koma og koma á betra kerfi í kringum eftirfylgni með aðgerðunum þannig að það verði tryggt að ráðuneytin standi við sitt. 

Frumvarp liggur fyrir þinginu sem á að lögbinda lágmarksskuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu. Í stjórnarsáttmálanum  segir að stjórnin stefni að því að allar áætlanir ríkissins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum. Guðmundur Ingi segir að stórar áætlanir, eins og byggðaáætlun og samgönguáætlun fari í gegnum umhverfismat og þar séu loftslagsmálin einn þeirra þátta sem litið er til. Þetta er eitt af þeim atriðum sem mætti horfa heildstæðar á og mér finnst vert að halda áfram að skoða þó við eigum nú þegar ákveðin stjórntæki til að gera þetta. 

Loftslagsmálin eru ekki bara umhverfismál, þau snerta flest svið samfélagsins, því má spyrja hvort aðgerðir í umhverfisráðuneytinu dugi einar og sér, á kannski að færa málaflokkinn úr umhverfisráðuneytinu? Í einni af sviðsmyndum skýrsluhöfunda er talað um að færa þau til stofnunar sem starfaði þvert á ráðuneyti þannig að loftslagsmálin væru á ábyrgð allrar ríkistjórnarinnar. „Það er ekkert óeðlilegt við það að málaflokkurinn sé að meginstefnu hýstur í umhverfisráðuneytinu, þannig er þetta víðast hvar í löndunum í kringum okkur, sums staðar er sérstakt loftslagsráðuneyti, sérfræðiþekkingin er í þessu ráðuneyti og mikið hjá stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Ég held við mundum svo sem ekki græða á því að færa málaflokkinn héðan, hins vegar held ég að við myndum græða á því að samhæfa betur á milli ráðuneytanna. Þar eru tillögur í drögunum að skýrslunni um hvernig mögulega megi nálgast það og það er eitthvað sem við náttúrulega í heild sinni, ríkisstjórnin þurfum að leggjast yfir, ekki bara umhverfisráðherrann.“

„Það verður allt, allt annað að taka við af okkur“

Nú er lítið eftir af kjörtímabilinu, kosningar á næsta ári. Hefur ríkisstjórnin tíma til að taka stjórnsýsluna í loftslagsmálum í gegn? „Ég held við munum ná þeim árangri að skilja við okkur með þeim hætti að það verði allt, allt annað að taka við af okkur. Það sem ég meina með því er að við verðum búin að koma loftslagsmálunum í þann farveg að það verði mjög erfitt að snúa af þeirri braut að ná fram þeim markmiðum sem Ísland hefur sett sér með tilkömu þessarar ríkisstjórnar.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV