„Ég er bara ánægður með að einhver hafi áhuga á þessu,“ segir Ármann í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Ármann segir óljóst hvenær og hvernig Sigurjón muni nýta réttinn. Hann tryggi sér réttinn til nokkurra ára og ákveði svo hvað hann gerir. „Það er bara gott í sjálfu sér að hann hafi lesið bókina og fundist hún þannig að hann gæti gert eitthvað svoleiðis úr henni,“ segir Ármann.
Aðspurður hvort það teljist ekki gæðastimpill fyrir bókina að Sigurjón hafi hug á að gera upp úr henni kvikmynd eða sjónvarpsþætti segir Ármann svo vera.„Hann hefur náttúrulega unnið með David Lynch og er fagmaður í þessu fagi til áratuga.“
„Sögur geta gerst hvar sem er“
Sögusvið Tíbrár er Ísland. Sagan gerist í höfuðborginni og í ónefndum firði þar sem ekki er netsamband. „Það skiptir svolitlu máli, netsamband getur nú eyðilagt margt í svona sakamálasögu,“ segir Ármann.