Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sigurjón eignast kvikmyndaréttinn að Tíbrá 

Mynd:  / 

Sigurjón eignast kvikmyndaréttinn að Tíbrá 

19.06.2020 - 10:12

Höfundar

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi hefur tryggt sér réttinn að glæpasögunni Tíbrá eftir Ármann Jakobsson. Bókin er þriðja glæpasaga Ármanns en hún var gefin út af bókaútgáfunni Bjarti á dögunum.

„Ég er bara ánægður með að einhver hafi áhuga á þessu,“ segir Ármann í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

Ármann segir óljóst hvenær og hvernig Sigurjón muni nýta réttinn. Hann tryggi sér réttinn til nokkurra ára og ákveði svo hvað hann gerir. „Það er bara gott í sjálfu sér að hann hafi lesið bókina og fundist hún þannig að hann gæti gert eitthvað svoleiðis úr henni,“ segir Ármann.  

Aðspurður hvort það teljist ekki gæðastimpill fyrir bókina að Sigurjón hafi hug á að gera upp úr henni kvikmynd eða sjónvarpsþætti segir Ármann svo vera.„Hann hefur náttúrulega unnið með David Lynch og er fagmaður í þessu fagi til áratuga.“ 

„Sögur geta gerst hvar sem er“ 

Sögusvið Tíbrár er Ísland. Sagan gerist í höfuðborginni og í ónefndum firði þar sem ekki er netsamband. „Það skiptir svolitlu máli, netsamband getur nú eyðilagt margt í svona sakamálasögu,“ segir Ármann.  

Mynd með færslu
Ármann Jakobsson, prófessor í íslensku. Mynd: RÚV
Ármann Jakobsson, höfundur Tíbrár.

Við kvikmynda eða þáttagerð gæti sögusviðið þó vel breyst. „Sögur geta gerst hvar sem er“. Ármann segir Sigurjón hafa mestan áhuga á glæpnum sjálfum og glæpamönnunum.  

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að vera Sigurjóni innan handar við kvikmynda- eða þáttagerð segir Ármann það enn óljóst. „Þetta er nýtt form fyrir mig og örugglega svolítið tímafrekt. “ 

„Bókin er ansi góð, þannig fólk á að lesa hana fyrst“ 

Bókin er þriðja glæpasaga Ármanns, en áður komu út Útlagamorðin og Urðarköttur. Bækurnar fjalla allar um sömu lögreglumennina, þeir þróast með hverri bók, en glæpirnir eru nýir og glæpamennirnir að sama skapi.  

Hann segir að þótt nú stefni í að sagan verði að kvikmynd eða sjónvarpsþáttum standi bókin fyrir sínu. „Bókin er ansi góð, þannig fólk á að lesa hana fyrst.“