Ósamkomulag um björgunarsjóð ESB

19.06.2020 - 17:31
European Commission President Ursula von der Leyen, top, speaks via video conference to top leaders during an EU-Eastern Partnership Leaders' summit at the Europa building in Brussels, Thursday, June 18, 2020. (AP Photo/Francisco Seco, Pool)
 Mynd: AP
Leiðtogum Evrópusambandsins tókst ekki að ná samkomulagi um björgunarsjóð fyrir ríki sem hafa orðið verst úti í COVID-19 farsóttinni. Annar fundur er boðaður í næsta mánuði. Dregið er í efa að samkomulag náist þá.

Leiðtogarnir 27 notuðu fjarfundabúnað þegar þeir ræddust við í dag þar sem illmögulegt var talið vegna farsóttarinnar að þeir gætu hist í eigin persónu. Helsta efni fundarins var að ræða uppástungu Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, um 750 milljarða evra björgunarsjóð sem ætlunin er að nýta til að hjálpa þeim ríkjum í suðurhluta Evrópu sem hafa orðið verst úti efnahagslega á undanförnum mánuðum, einkum Ítalíu og Spáni.

Lagt hefur verið til að 500 milljarðar verði greiddir út sem styrkir og afganginn geti illa staddar þjóðir fengið að láni. Leiðtogar fjögurra ríkja, Danmerkur, Svíþjóðar, Austurríkis og Hollands, telja að sjóðurinn sé of stór og vilja að stærri hluti hans verði nýttur sem lánsfé.

Ákveðið var að leiðtogarnir 27 komi saman í Brussel í næsta mánuði og reyni að komast að niðurstöðu. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagðist í viðtölum síðdegis ekki viss um að samkomulag um sjóðinn næðist á næsta fundi leiðtoganna eða hvort halda þurfi fleiri fundi í sumar eða síðar. Aðhaldssömu ríkin í norðri hafa verið nefnd the frugal four, sem gæti útlagst hin fjögur frábitnu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi