Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nú er hægt að sækja ferðagjafar-appið

19.06.2020 - 11:06
Ferðagjöf
 Mynd: Skjáskot
Ferðagjafar-app stjórnvalda hefur nú verið gert aðgengilegt í snjallsíma og þar með er hægt að sækja ferðagjöfina. Frumvarp ferðamálaráðherra um 5.000 króna ferðagjöf stjórnvalda var samþykkt á Alþingi í síðustu viku og allir sem eru fæddir árið 2002 og fyrr og eru með íslenska kennitölu og skráð lögheimili hér á landi fá ferðagjöfina. Henni er ætlað að hvetja landsmenn til ferðalaga og styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Ferðagjöfina er meðal annars hægt að nota til að greiða fyrir veitingar, gistingu, bílaleigubíla og aðgang að söfnum hjá þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem hafa skráð sig til þátttöku. Til að nota gjöfina þarf að sækja strikamerki í gegnum appið og það nýtist síðan sem greiðslukóði.

Hvert fyrirtæki má að hámarki taka við 100 milljónum í formi ferðagjafa og fyrirtæki sem glímdu við rekstarerfiðleika í lok síðasta árs mega að hámarki taka við 25 milljónum.

Nú hafa um 300 fyrirtæki skráð sig samkvæmt vefsíðunni ferðalag.is.