Menningarnótt verður 10 daga hátíð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Menningarnótt verður 10 daga hátíð

19.06.2020 - 14:10

Höfundar

Hátíðahöld vegna Menningarnætur munu dreifast yfir tíu daga vegna COVID-19 faraldursins. 

Hátíðin mun fara fram dagana 13. til 23. ágúst. 

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að breyting á skipulagi hátíðarinnar sé í samræmi við tilmæli almannavarna vegna faraldursins og að markmiðið sé að stefna ekki of miklum mannfjölda saman. 

Reykjavíkurborg auglýsir eftir hugmyndum um viðburði fyrir hátíðina. Veittir verða styrkir á bilinu 100–500 þúsund krónur og allir geta sótt um. Samkvæmt Elfu Björk Ellertsdóttur, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg, eru styrkirnir tvöfalt hærri í ár. 

Þjóðhátíðardagur Íslendinga var haldinn hátíðlegur í vikunni og voru hátíðahöld af því tilefni einnig með breyttu sniði. Til þess að koma í veg fyrir margmenni var staðsetning viðburða var ekki auglýst fyrirfram nema að takmörkuðu leyti.

Elfa segir að sú leið verði ekki farin á Menningarnótt, heldur verði dagskráin auglýst. Ekki liggur fyrir hversu margir viðburðir verða hvern dag en samkvæmt Elfu mun það skýrast þegar fyrir liggur hve margir hljóta styrki í ár. 

„Það verður spennandi að sjá hverjir sækja um og við hvetjum alla sem vilja vera með listgjörning, dans, karókí eða bara hvað sem er að sækja um styrk í pottinn,“ segir Elfa. 

Aðspurð um hina árlegu flugeldasýningu sagði Elfa ekki geta veitt upplýsingar um hana að svo stöddu. 

 

 

 

Tengdar fréttir

Innlent

17. júní hátíðarhöld að hluta til rafræn

Innlent

Segir Menningarnótt almennt hafa gengið vel