Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landspítalinn umbunar starfsfólki vegna álags

19.06.2020 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Allir starfsmenn Landspítala, fyrir utan þá sem gegna þar æðstu stöðum, fá greidda umbun frá spítalanum næstu mánaðamót. Ástæðan fyrir umbuninni er aukið álag vegna COVID-19. Þetta kemur fram í forstjórapistli Páls Matthíassonar sem birtist á vef Landspítala í dag.

Upphæð umbunarinnar er að hámarki 250 þúsund krónur en hún fer eftir viðveru starfsmannsins í mars og apríl. Í pistli Páls kemur fram að umbunin sé þakklætisvottur frá stjórnvöldum. 

Mikið álag var á heilbrigðisstarfsfólki þegar COVID-faraldurinn var sem skæðastur í vor. Vinnutarnir voru langar og nauðsynlegur hlífðarbúnaður óþægilegur. 

„Í nýlegri örkönnun skrifstofu mannauðsmála kom fram að nær allir starfsmenn töldu sig hafa orðið fyrir áhrifum í starfi sínu vegna Covid-19. Það rímar ágætlega við þá ákvörðun að allir starfsmenn, að sjálfum mér og aðstoðarmanni mínum, framkvæmdastjórum og forstöðumönnum undanskildum, munu fá umbun greidda nú um næstu mánaðamót,“ segir í pistli Páls.

Snemma í apríl sendi forstjóri Landspítala Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra bréf þar sem hann lagði til að starfsfólki sjúkrahússins yrði umbunað vegna álags. Þann 21. apríl ákvað heilbrigðisráðherra svo að verja einum milljarði króna í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks heilbrigðisstofnana vegna COVID-faraldursins. 

Hefur þungar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli

Hjúkrunarfræðingar hafa boðað verkfall og hefst það að óbreyttu strax eftir helgi. Samningaviðræður hafa staðið frá því klukkan tíu í morgun en ríkissáttasemjari segir að fundarhöld muni sennilega halda áfram um helgina ef fundinum í dag lýkur án niðurstöðu. 

Páll segir í pistli sínum að hann hafi þungar áhyggjur af stöðu mála. 

„Það var stutt stundin milli stríða. Nú þegar starfsemi spítalans er að færast í hefðbundinn sumarbúning og fólk á leið í sumarfrí er allt útlit fyrir að á mánudagsmorgun skelli á allsherjarverkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ég hef margoft sagt að ekkert sé verra og meira truflandi fyrir starfsemi sjúkrahúsa en verkfall og stend við það. Eftir erfiðan vetur og sérstaklega þungan fyrir starfsfólk okkar, þar sem hjúkrunarfræðingar voru sannarlega hryggjarstykkið í starfseminni, er afleitt að þetta sé sú staða sem uppi er.“