Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Hún er rosalega bjánalegt fyrirbæri“

Mynd: Spessi / Spessi

„Hún er rosalega bjánalegt fyrirbæri“

19.06.2020 - 13:59

Höfundar

„Ég á svolítið erfitt með endurtekningar og hefðir og fannst tilvalið að brjótast út úr því,“ segir Snorri Ásmundsson myndlistarmaður sem vakti athygli við hátíðahöld á Austurvelli 17. júní þegar hann hélt sína eigin fjallkonuræðu af svölum í Pósthússtræti. Lögreglan stöðvaði hann eftir rétt um tvær mínútur.

„Vinur minn Eiríkur Óskarsson á þessa rosa fallegu íbúð í Pósthússtræti með svalir út á Austurvöll. Hann hafði verið að stinga upp á því í gegnum árin að ég ætti að gera eitthvað á 17. Júní, ég var ekkert á því. En við vorum eitthvað að gantast með þetta og ég sló til,“ segir Snorri. 

„Svo var ég í Hveragerði hjá vinkonu minni Guðrúnu Evu Mínervudóttur og hún var að segja mér að hún yrði fjallkonan í Hveragerði og þá auðvitað fannst mér tilvalið að ég yrði fjallkonan í Reykjavík. Ég áttaði mig svo á því að ég væri fyrsta karlkynsfjallkonan og var rosalega snortinn yfir því að vera fyrsta karlkyns fjallkonan í Reykjavík og upplifði mikið þakklæti,“ segir Snorri.

Fjallkonan hefur á undanförnum árum birst okkur í fjölbreyttari mynd en áður. Búningurinn er sá sami en konurnar sem klæðast honum eru ólíkar. Það vakti árið 2004 þegar fréttablaðið Reykjavík Grapevine birti mynd af fjallkonunni á forsíðu blaðsins en fyrirsætan, Sheba Wanjiku, er svört. Reyndar hafði blandaður íslendingur þá þegar verið í sama hlutverki því að Brynja Dan Gunnarsdóttir var fjallkonan í Hafnarfirði árið 2002. Isabel Alejandra Días var svo fjallkonan á Ísafirði 2016. Aldís Hamilton leikkona var fjallkonan í Reykjavík í fyrra. Árið 2017 varð Eva Ágústa Aradóttir fyrsta trans konan í hlutverki fjallkonunnar, í Hafnafirði.

Karlmenn hafa einnig brugðið sér í búning fjallkonunnar. Viðar Eggertsson deildi til að mynda mynd af sér á samfélagsmiðlum klæddum í fjallkonubúning í kabarettinum Lausar skrúfur árið 1983. Enginn karlmaður hefur þó komið fram í hlutverki fjallkonunnar við opinber hátíðahöld á þjóðhátíðardaginn.

Snorri Ásmundsson myndlistarmaður var með gjörning á 17. júní, klæddi sig upp sem nýstárlega fjallkonu.
 Mynd: Spessi
Snögg viðbrögð lögreglu komu Snorra á óvart.

En af hverju ákvað Snorri að vinna með fjallkonuna, þennan persónugerving þjóðarinnar? „Hún er rosalega eitthvað bjánalegt fyrirbæri. Hún er auðvitað búin til af karlmönnum á sínum tíma, til að búa til eitthvað dúlluhlutverk fyrir konuna, að setja hana á stall en samt undir þá, finnst manni,“ segir Snorri sem klæddist ekki hefðbundnum skautbúningi fjallkonunnar heldur var fáklæddur með sólgleraugu og glimmerskikkju.

Snorri segir að það hafi komið sér á óvart hversu fljót lögreglan var að stöðva hann en dyrnar að íbúðinni voru ólæstar svo lögreglumennirnir gengu beint inn. „Ég var ekki að trufla hátíðahöldin vegna þess að ég var með dagskrána korteri á undan – kannski frekar að ég hafi verið að þjófstarta.“

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Mótmæli, gjörningur og flugvélartruflun á hátíðarhöldum