Hálfnaðar á hringferð til styrktar hjálparsímanum 1717

19.06.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Rúnar Snær Reynisson - Elín og Agnes á Egilsstöðum
Tvær ungar konur, Elín Claire Heba Ramette  og Agnes Hjaltalín Andradóttir, eru hálfnaðar á hjólaferð í kringum landið. Þær eru ekkert að flýta sér og safna fé fyrir hjálparsíma Rauða krossins 1717. Þar eru símtöl orðin tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Þær segja að ökumenn séu tillitssamir en ofbýður rusl sem hent er út um bílglugga.

„Fólk á að hætta að henda rusli út um gluggann. Flöskurnar ykkar; geymið þær og setjið vatn í þær. En ég veit að það eru margir Íslendingar sem gera þetta líka. Það má ekki alltaf segja - það eru túristarnir,“ segir Elín við fréttamann sem hitti þær stöllur á Egilsstöðum í morgun.

„Meira að segja á einum stað var samloka enn þá í plastinu. Bara fín samloka. Við vorum að pæla í að ná í hana og borða hana. Nú eru engir túristar þannig að þá er pressa á Íslendingana að halda landinu hreinu,“ segir Agnes.

Þær segjast annars hafa notið þess vel að hjóla um í náttúrunni og kynnast landinu. Í gær hafi Herðubreið fylgt þeim í marga klukkutíma. Þær segjast hafa haft samband við Rauða krossinn og fengið þær upplýsingar að þörf væri á að styrkja hjálparsímann. Þær lögðu af stað frá Reykjavík 8. júní og er markmiðið að safna rúmum 1,4 milljónum eða þúsund krónum fyrir hvern kílómetra.

Kvíðabylgja gekk yfir í mars

Hjá Rauða krossinum fengust þær upplýsingar að fram til 19. júní í fyrra hafi símtöl í 1717 verið 6.437 en á sama tíma í ár eru þau orðin 13.702. Mars sker sig úr. Í mars í fyrra voru símtölin 1.356 en í ár voru þau 6.295. Mikil aukning varð í samtölum tengdum kvíða. Margir höfðu áhyggjur af veirunni og hvaða afleiðingar hún myndi hafa á þá sjálfa og sína nánustu.

Agnes og Elín leggja af stað frá Egilsstöðum í dag og ætla til Fáskrúðsfjarðar. „Það er bara helmingurinn eftir. Ísi písi,“ segir Elín.

Rætt verður við þær í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 en þátturinn hefst eftir síðdegisfréttir klukkan 16.

Fylgjast má með ferðalagi þeirra á facebook-síðu Grænu hringekjunnar

Styrkja má hjálparsíma Rauða krossins 1717 á vefsíðu átaksins en í morgun höfðu safnast 312 þúsund krónur. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi