Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðrún Sóley með bestu vegan bók í heimi

Mynd með færslu
 Mynd: Salka

Guðrún Sóley með bestu vegan bók í heimi

19.06.2020 - 13:51

Höfundar

Matreiðslubókin Grænkerakrásir, eftir Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur, hlýtur hin alþjóðlegu Gourmand-matreiðslubókarverðlaun í tveimur flokkum.

Bókin Grænkerakrásir hreppti fyrsta sætið í flokki veganbóka og hafnaði í þriðja sæti í flokki skandinavískra matreiðslubóka. Bækur frá fleiri en 200 löndum og landsvæðum keppast um verðlaunin árlega. Gourmand-verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1995.

Í tilkynningu frá útgefanda bókarinnar segir að Guðrún Sóley hafi alla tíð verið matargat og sælkeri. Hún hafi ákveðið að stíga skrefið til fulls og verða alfarið vegan fyrir nokkrum árum. „Heill heimur opnaðist fyrir mér og ég trúði varla möguleikunum sem öll þessi hráefni bjóða upp á; kryddin, ferska grænmetið, baunirnar, ávextirnir, jurtirnar, hneturnar, fræin. Pastað! Pizzurnar! Hamborgararnir! Kökurnar, kruðeríið og sælgætið. Og sósurnar – maður lifandi, sósurnar!“ segir Guðrún Sóley.

Grænkerakrásir kom út hjá bókaútgáfunni Sölku fyrir jólin 2018. Ljósmyndir bókarinnar tók Rut Sigurðardóttir, hönnun var í höndum Þorbjargar Helgu Ólafsdóttur hjá Farva og Ágústa Arnardóttir vöruhönnuður annaðist stíliseringu. Afhending Gourmand-verðlaunanna átti að fara fram í París í júní en vegna aðstæðna varð ekki af því. Óformleg verðlaunaafhending fór fram á Vinnustofu Kjarvals á 17. júní.