Fundi ríkis og samninganefnda Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hjá ríkissáttasemjara lauk á sjötta tímanum án niðurstöðu. Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi.
Fundað verður aftur á morgun klukkan 9:30. Hjúkrunarfræðingar hafa boðað verkfall klukkan átta á mánudaginn, náist samningar ekki um helgina. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir viðræðurnar mjög þungar en þrátt fyrir það sjái þau tækifæri til að hittast aftur á morgun.
Þau vildu ekki tjá sig um gang viðræðanna að öðru leyti.
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, sagði fyrr í dag að málið sé í algjörum forgangi og að samningsaðilar muni sitja við eins lengi og vænlegt sé til árangurs.