Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flugfreyjur funda aftur á mánudag

19.06.2020 - 20:47
Flugfreyjufélag Íslands heldur félagsfund um kjaradeilu við Icelandair á Hilton Nordica. Fundargestir spjalla eftir fundinn.
 Mynd: RÚV
Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funduðu í dag hjá ríkissáttasemjara til klukkan 19:30. Fundarhöld skiluðu ekki niðurstöðu og verður næsti fundur haldinn á mánudaginn.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, sagði  í samtali við fréttastofu Vísis að umræður fundarins hefðu verið góðar.

Síðast var fundað 20. maí en þá hafnaði flugfreyjufélagið tilboði Icelandair sem sett var fram sem eins konar afarkostir að sögn Guðlaugar Líneyjar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði þá að markmið félagsins frá upphafi viðræðna hafi verið að tryggja nýjan kjarasamning á milli Icelandair og FFÍ sem tryggir hagsmuni beggja aðila og vonaðist Icelandair enn til þess að slík niðurstaða næðist í tæka tíð.