Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ekki fleiri heimilisofbeldismál síðan 2015

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tilkynningar um heimilisofbeldi voru 106 í maí. Ekki hafa borist fleiri tilkynningar í einum mánuði frá 2015. Næstflestar tilkynningar bárust í apríl þegar málin voru 101. Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi í gær.

 

Þar svaraði Áslaug Arna fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar, þingmanns Miðflokksins um fjölda tilkynninga um heimilisofbeldi. Þar kom fram að heimilisofbeldismál voru 19% fleiri fyrstu 23 vikur ársins 2020 miðað við sama tímabil í fyrra. 

„Fleiri brot hafa átt sér stað í 7 af 9 embættum lögreglunnar á fyrstu 23 vikum ársins 2020 heldur  en á sama tíma í fyrra og mesta aukningin hjá þremur stærstu embættunum,“ sagði Áslaug Arna.

Hún sagði að fjöldi brota á viku fyrstu fimm mánuði ársins hefði verið meiri en meðaltal undanfarinna ára. „Að meðaltali hafa þau verið 75 á mánuði á tímabilinu 2017 til 2020 og meðalfjöldi brota fyrstu fimm mánuði 2020 er hár eða 88 brot. Það á svo eftir að koma í ljós hvort meðaltalið helst út árið eða hvort brotum fækkar seinni hluta ársins,“ sagði Áslaug Arna.

Hún sagði að erfitt gæti reynst að meta fjölgun brota eingöngu út frá gögnum lögreglu. „Mikilvægt er að fylgjast áfram  með þessari þróun til að meta hvort orðið hafi raunbreytingar á fjölda brota. Til þess þarf að skoða reynslu almennings af brotum samhliða gögnum lögreglu,“ sagði Áslaug Arna.

Hún sagði að það væri meðal annars gert með þolendakönnun  sem lögregla framkvæmir árlega í upphafi hvers árs