
Barist og sungið fyrir réttindum kvenna
19. júní er helgaður kvenréttindum. Þann dag árið 1915 fengu konur á Íslandi, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Að vanda var í morgun lagður blómsveigur að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem á sínum tíma barðist ötullega fyrir réttindum íslenskra kvenna. Hún hafði frumkvæði að stofnun Kvenréttindafélags Íslands og átti mestan þátt í því að íslenskar konur urðu hluti af alþjóðlegri kvenréttindabaráttu.
Og víðar var sungið í tilefni dagsins. Konur í samtökum um nýja stjórnarskrá komu saman í Mæðragarðinum við Lækjargötu við styttuna Móðurást eftir Nínu Sæmundsson. Konurnar krefjast þess að ný stjórnarskrá verði lögfest. Þær berjast fyrir róttækum breytingum á samfélaginu í krafti kvennasamstöðu.
Þá var farin feminísk söguganga um Reykjavík. Gestir voru leiddir í fótspor kvenna í miðbænum og byltingarsaga borgarinnar með áherslu á réttindabaráttu kvenna var rakin. Gangan endaði með því að skálað var í bjór sem bruggaður var til heiðurs baráttukonunni Guðrúnu Ögmundsdóttur.
Uppfært 19:55 - Ranglega var farið með nafn Nínu Sæmundsson í fréttinni. Beðist er velvirðingar á þessu.