Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Veiran er hér ennþá óháð landamæraopnun

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Sex hafa greinst með kórónuveiru á þremur dögum við landamæraskimun en aðeins tveir þeirra eru smitandi. Veiran er enn í þjóðfélaginu segir sóttvarnalæknir og því ekki bara áhætta við að hleypa fólki til landsins. 

Tveir farþegar smitandi og 20 settir í sóttkví 

Af þeim 540 farþegum sem skimaðir voru í gær var einn með veiruna. Verið er að athuga hvort hann er með mótefni í blóði. Ef svo er þá er hann ekki smitandi. Af þeim sex sem greinst hafa við landamæraskimun eru tveir smitandi. Aðeins 20 manns hafa þurft að fara í sóttkví vegna þessara farþega. 

„Ég held að á þessari stundu sé of snemmt að draga víðtækar ályktanir af skimuninni. Og við verðum að láta lengri tíma líða. Við höfum talað um að við þurfum að gera þetta vel upp eftir svona tvær vikur,“ sagði Þórólfur Guðnason á upplýsingafundinum í dag. Þrír upplýsingafundir verða haldnir í næstu viku. 

Ferðamenn fá fræðslubæklinga

Ferðamenn hafa ekki verið nógu klárir á hvað sóttkví þýðir. Nú er búið að prenta kynningarefni sem dreift verður til þeirra. Þá er búið að uppfæra smitrakningaappið sem hundruð hafa sótt sér síðustu daga. Það er tryggara en sms sendingar, sem agnúar hafa verið á. 

„Það er ekki eins og veiran sé alveg farin úr íslensku samfélagi. Ég held hún sé hérna ennþá. Þannig að þetta er ekki bara spurning um það að hleypa fólki inn, klárlega aukum við áhættuna með því að einhverju leyti,“ segir Þórólfur

Því þarf viðkvæmt fólk að halda áfram að passa sig og landlæknir bendir á uppfærðar upplýsingar til þessa hóps á vef embættisins. 

Ellefu sektaðir, tveir frá brottvísun og meira í bígerð

Rúmenamálið á Selfossi, sem komst í fréttir á laugardaginn þegar tveir þeirra sem grunaðir voru um þjófnað greindust með virk kórónuveirusmit, hefur orðið til þess að samtals eru 28 í sóttkví eða réttara sagt þrír í einangrun og 25 í sóttkví. Fjórtán eru lögreglumenn, voru sextán í upphafi, en hinir fjórtán eru með rúmenskt ríkisfang. Lögreglan er með mál þessara fjórtán í vinnslu. 

„Það er í gangi vinna vegna sektargerðar út af broti á sóttkví og það mál er bara í vinnslu og því ekki lokið,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. 

Ellefu hafa þegar verið sektaðir og nemur sektarfjárhæðin 150 til 250 þúsund krónum. Mál þriggja er í vinnslu á Selfossi . Búið er að ákveða að vísa tveimur úr landi. Eftir er að ákveða með hina. 

Þurfum sjálf að passa okkur

Langt er síðan eins margir komu saman eins og í gær. Þá var þjóðhátíðardeginum fagnað. 

„Við völdum ekki þá leið að setja mjög stíf boð og bönn í mörgu og við erum ekki með lögregluna að elta fólk uppi í þessum málum eins og þessum að vera telja inn á ákveðin svæði. Við þurfum að passa okkur á því sjálf hvert við förum og hvar við erum og gæta sjálf að því hvernig við viljum haga þessum vörnum,“ segir Víðir.