Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Tókst að bjarga starfinu og lyfta því á hærra plan“

Mynd: Hólmfríður Einarsdóttir / Hólmfríður Einarsdóttir
Eftir tuttugu ára baráttu fengu heilbrigðisgagnafræðingar því framgengt að nám þeirra var fært upp á háskólastig. Þeir skiptu líka um starfsheiti enda þótti þeim það gamla engan veginn eiga við lengur. Nýliðun hefur verið ábótavant og farið var að bera á skorti á hæfu fólki en aðsókn í námið stórjókst síðastliðið haust. Formaður Félags heilbrigðisgagnafræðinga lítur svo á að stéttinni hafi verið bjargað í bili. 

Starfsheitið barn síns tíma 

„Titillinn sjálfur er bara svo mikið barn síns tíma, þetta er engan veginn lengur læknaritun og ekkert einhver ritun, þetta snýst ekki lengur bara um það. Þetta var ekkert niðrandi starfsheiti eða eitthvað slíkt, það bara passaði ekki við hvernig starfið hefur þróast.“ Þetta segir Hólmfríður Einarsdóttir, formaður Félags heilbrigðisgagnafræðinga, sem þar til í júlí í fyrra hét Félag læknaritara. Þá tók gildi ný reglugerð þar sem starfsheitið læknaritari var fellt úr gildi, því skipt út fyrir starfsheitið heilbrigðisgagnafræðingur. Síðasta haust færðist námið svo frá heilbrigðisbraut Fjölbrautaskólans í Ármúla upp á háskólastig.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Læknisskoðun á heilsugæslustöð. Skrifar læknirinn sjálfur skýrslu eða diktar hann?

Heilbrigðisgagnafræði er tveggja ára diplómanám við Læknadeild Háskóla Íslands og að því loknu geta nemendur sótt um starfsleyfi til Embættis landlæknis. 

Skrifuðu upp eftir kasettum lækna

Starfsheitið læknaritari varð til árið 1970. Fyrir þann tíma var utanumhald um sjúkraskrár lítið. Læknaritarar fengu löggildingu á starfsheiti sínu 1986 og eftir það var sett á fót námsleið við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Á vef félags heilbrigðisgagnafræðinga kemur fram að störfin hafi breyst mikið á síðustu árum og þörf á nýju námi aukist. Heilbrigðisgagnafræðingar hafa sérþekkingu á meðhöndlun heilbrigðisgagna, gæðastöðlum og lagaumhverfi heilbrigðisþjónustunnar, þeir sinna skiplagningu, skráningu, kóðun og úrvinnslu og taka þátt í að móta stefnu um þróun rafrænnar sjúkraskrár og kenna öðrum heilbrigðisstéttum að nota hana. Áður tóku læknar skýrslur upp á segulband og læknaritarar höfðu það hlutverk að skrifa skýrslurnar upp.„Þetta er orðið meira bara umsjón með þessari rafrænu sjúkraskrá og þá ekki bara fyrir lækna heldur alls konar skrár og skráningarform. Svo færist sjúkraskráin frá því að vera á pappírsformi yfir á rafrænt form og alveg eins og við þurftum að passa upp á að hver einasti pappír væri inni í pappírsskránni inni í skjalavörslu þá snýst þetta orðið núna um þetta rafræna utanumhald, að allt sé á réttum stað í kerfinu.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skjalageymsla.

Hún segir að starfið sé bæði orðið flóknara og fjölbreyttara en það var. Þá séu unglæknar í dag margir farnir að skrifa sjálfir í stað þess að taka upp á diktafón. „Þeir eru fljótari að því en að taka upp. Það er ekki nema þeir séu í flóknum aðgerðalýsingum eða einhverju slíku.“

Það er sem sagt enn eitthvað um að læknar taki upp skýrslur, hljóðupptökurnar eru þá vistaðar í rafrænu skrána. Rafræna skráin kom árið 1997 en var ekki tekin upp á sjúkrahúsum fyrr en 2009. Þar var því haldið lengur í pappír og hljóðsnældur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkraskrárkerfið Saga.

Tvívegis komin með tærnar inn í háskólann

Aðsóknin í námið var orðin mjög dræm og verulegur skortur á fólki með fagmenntun. Hólmfríður útskrifaðist 1998 og voru tíu í útskriftarhópnum. Síðan þá hefur fækkað í hópnum, útskriftarnemarnir þrír til fjórir. „Þetta eru, held ég að ég geti fullyrt, yfirleitt alltaf manneskjur sem eru í starfi og eru þá bara búnar að vera að ná sér í réttindin samhliða því, hafa mögulega verið ráðnar inn af því að það vantaði. Það má ekki ráða ófaglærða í þetta starf, starfsheitið er lögverndað en þetta náttúrulega gerist bara. Það sem kannski breytist núna. Baráttan við að koma þessu á háskólastig er orðin meira en tuttugu ára gömul og hún hefur verið ströng. Forsendan fyrir því að fara í námið er stúdentspróf og nýútskrifaður stúdent leitar sér ekki aftur að námi í fjölbrautaskóla. Skólanefndin sem er búin að vera starfandi, sú sama í öll þessi ár, hún var í raun tvívegis komin með tærnar inn í háskólann, því það var alls staðar skilningur á því að þetta þyrfti en ef það var ekki fjármagnið þá var það hrunið 2008 sem gerði það að verkum að ekki varð úr þessu. Svo tókst þetta loksins og varð að veruleika núna í fyrra og þá voru 122 umsóknir, einhverjar uppfylltu ekki skilyrðin, og ég held að ég fari rétt með að það hafi verið um 60 starfandi löggildir læknaritarar sem sóttu um.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Aðalbygging Háskóla Íslands.

Stefnir ekki lengur í óefni

Stökk úr fjórum í yfir hundrað hlýtur að teljast góður árangur, Hólmfríður segir að félagið hafi ekki hafa ráðist í neina svakalega auglýsingaherferð en bás heilbrigðisgagnafræðinnar hafi verið vinsæll á Háskóladeginum, þetta sé fjölbreytt skemmtilegt starf og mörgum finnist eflaust kostur að geta tekið námið með fullu starfi. Þetta eru allt konur, Hólmfríður veit ekki til þess að karlmaður hafi starfað við fagið. Í haust hyggjast 62 hefja nám í faginu samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands. Það stefnir ekki lengur í óefni. „Ég hef alltaf hugsað þetta svolítið skringilega. Það þarf háskólamenntaða manneskju til að sjá um bókasöfn landsmanna en að þú skulir ekki þurfa háskólamenntaðan einstakling til að sjá um sjúkraskrár. Þetta eru náttúrulega viðkvæmustu upplýsingarnar sem er að finna þar. En já, ég veit ekki hvernig þetta hefði farið, þetta hefði getað færst á hendur annarra eða á ófaglærða,“ segir Hólmfríður. 

Hún segist líta svo á að félaginu hafi tekist að bjarga starfinu, í bili að minnsta kosti. „Já, klárlega og vernda það og koma því á hærra plan, þar sem það á heima.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV