Starfsheitið barn síns tíma
„Titillinn sjálfur er bara svo mikið barn síns tíma, þetta er engan veginn lengur læknaritun og ekkert einhver ritun, þetta snýst ekki lengur bara um það. Þetta var ekkert niðrandi starfsheiti eða eitthvað slíkt, það bara passaði ekki við hvernig starfið hefur þróast.“ Þetta segir Hólmfríður Einarsdóttir, formaður Félags heilbrigðisgagnafræðinga, sem þar til í júlí í fyrra hét Félag læknaritara. Þá tók gildi ný reglugerð þar sem starfsheitið læknaritari var fellt úr gildi, því skipt út fyrir starfsheitið heilbrigðisgagnafræðingur. Síðasta haust færðist námið svo frá heilbrigðisbraut Fjölbrautaskólans í Ármúla upp á háskólastig.