Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telur sig ekki skulda Þorvaldi og Lars afsökunarbeiðni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur sig ekki þurfa að biðja Þorvald Gylfason og sænska hagfræðiprófessorinn Lars Calmfors afsökunar. Þetta sagði hann í svari við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, á Alþingi í morgun.

Stjórnvöld á Íslandi lögðust gegn því að Þorvaldur Gylfason tæki við stöðu ritstjóra fræðitímaritsins Nor­dic Economic Policy Review. Tölvupóstsamskipti starfsmanns fjármála- og efnahagsráðuneytisins við forsvarsmenn tímaritsins gefa til kynna að ástæðan fyrir því hafi fyrst og fremst verið sú að Þorvaldur hafi verið virkur í stjórnmálastarfi. Í tölvupóstinum er sagt að hann sé formaður stjórnmálaflokks. Síðar kom fram að það hafi verið byggt á úreltum upplýsingum af gamalli Wikipedia-síðu

Þykir stjórn Félags prófessora hafa fallið á prófi

Félag prófessora við ríkisháskóla gagnrýnir afskpti fjármála- og efnahagsráðuneytisins í yfirlýsingu sem birt var í gær. Þar segir meðal annars að skipulögð gagnrýni sé nauðsynlegur hluti vísindalegrar nálgunar og í mörgum tilfellum sé virk samfélagsþáttaka ávinningur fyrir vísindastarf. Félagið telur jafnframt að afskipti stjórnvalda séu ómálefnaleg:

„Fé­lag pró­fess­ora við rík­is­há­skóla mót­mælir harð­lega hinum póli­tísku afskiptum íslenska fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins af ráðn­ing­ar­málum tíma­rits­ins. Þessi afskipti skortir mál­efna­legan grund­völl og afhjúpa skiln­ing­leysi á vís­inda­starf­semi. Þau setja hið nor­ræna tíma­rit niður og eru ráðu­neyt­inu til álits­hnekk­is. Íslenskt sam­fé­lag þarf síst á því að halda að stjórn­völd leggi stein í götu vís­inda­manna sem fal­ast er eftir til starfa í krafti þekk­ingar sinn­ar,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni. 

Þórhildur Sunna reifaði yfirlýsingu Félags prófessora við ríkisháskóla í pontu á Alþingi í morgun og spurði Bjarna hvort hann hefði móttekið skilaboð þeirra og hvort þau hefðu haft áhrif á afstöðu hans. 

Bjarni sagði að rökstuðningur fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir synjuninni hefði verið málefnalegur. Stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla hefði láðst að líta á málið frá öllum hliðum. „Ég verð að segja að mér þykir stjórn Félags prófessora hafa fallið á þessu prófi. Fallið á prófinu um raunhæfa verkefnið sem við höfum hér verið að ræða um. Ekki tekið tillit til ólíkra sjónarmiða, ekki getið heimilda og svo framvegis, byggt á einhliða frásögn á málinu  og komist að niðurstöðu algerlega án þess að ígrunda allar hliðar málsins.“  

Bjarni sagði að þessi yfirlýsing væri ekki mikilvægt innlegg í umræðuna og gagnrýndi hvernig staðið var að ráðningunni. „Það er aðalatriði máls, að menn séu hér að véla með stöður sem við eigum að hafa áhrif á hvernig fara og það er það sem hefur afhjúpast í þessu máli. Menn ætluðu sjálfir, án þess að spyrja okkur Íslendinga að ráða þessu máli til lykta. Það er hneykslið í þessu máli.“

„Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að biðja einhvern prófessor úti í Svíþjóð afsökunar?“

Þórhildur Sunna tók aftur til máls og vitnaði í viðtal sem Kvennablaðið tók við Lars Calmfors hagfræðiprófessor sem lagði Þorvald til sem næsta ritstjóra Nor­dic Economic Policy Review. Í viðtalinu ítrekaði Calmfors að hann hefði stungið upp á Þorvaldi af faglegum ástæðum en ekki vegna kunningsskapar, líkt og Bjarni Benediktsson hefur ýjað að. Calmfors sagði í viðtalinu að sér þættu ummæli Bjarna stórfurðuleg og fannst við hæfi að fá frá honum afsökunarbeiðni. 

Þórhildur spurði Bjarna hvort til greina kæmi að biðja Lars Calmfors og Þorvald Gylfason afsökunar vegna framgöngu hans í málinu. Bjarni svaraði að slíkt kæmi ekki til greina. 

„Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að biðja einhvern prófessor úti í Svíþjóð afsökunar á því að benda á það sem allir sjá, eftir að gögn málsins hafi núna komið fram? Að án þess að við Íslendingar vorum spurðir, þá voru menn að tala saman og póstur sendur á íslenska prófessorinn þar sem staðan var boðin? Hver ætlar að biðja okkur Íslendinga afsökunar á því að menn eru að véla með mál þar sem við áttum allan rétt á að hafa aðkomu, að okkur forspurðum?“