Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja Grímsvötn tilbúin að gjósa

18.06.2020 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson
Fundi vísindaráðs Almannavarna vegna stöðunnar í Grímsvötnum lauk rétt fyrir fjögur. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir í samtali við fréttastofu að viðbúið sé að hlaup úr Grímsvötnum hefjist á næstu vikum eða mánuðum. Kvikusöfnun hefur átt sér stað frá því síðast gaus í Grímsvötnum árið 2011 og margt sem bendir til þess að eldstöðin sé tilbúin að gjósa á ný.

Jökulhlaup myndi létt á þrýstingi af eldstöðinni sem eykur líkurnar á gosi. Eldstöðin er að ganga í gegnum virknitímabil þar sem búast má við að það gjósi á fimm til 10 ára fresti. „Við vorum að fara yfir stöðuna, passa upp á að kerfið sé klárt þannig að ekkert komi okkur að óvörum þegar þar að kemur,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir að Grímsvötn séu komin um 25 ár inn í virknitímabili sem geti staðið yfir í 60 til 80 ár. „Það gýs á fimm til tíu ára fresti og mælingar sýna að aðstæður eru með þeim hætti að Grímsvötn eru að verða tilbúin að gjósa. Það er búið að vera stöðugt landris frá síðasta gosi, jarðskjálftavirkni hefur aukist lítillega í fyrsta skipti mældist brennisteinsdíoxíð þótt gos sé ekki hafið. Það mældist hvorki í fyrra né hittifyrra sem rennur stoðum undir að eldstöðin sé að verða tilbúin.“