Sviku út færslur af 100 debetkortum

18.06.2020 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Óprúttnir aðilar náðu að svíkja út færslur af um 100 debetkortum hér á landi um síðustu helgi. Málið er nú til rannsóknar hjá Valitor og Visa.

Bjarni Ákason framkvæmdastjóri greindi frá því í færslu á Facebook-síðu sinni í vikunni að þjófar í Brasilíu hefðu komist yfir PIN-númer hans og keypt vörur fyrir um 3,4 milljónir króna. 

„Þeir hafa ef­laust keypt sér eitt­hvað fal­legt, þetta voru allt dýrir hlutir sem keyptir voru á mörgum stöðum í Brasilíu,“ sagði hann í sam­tali við Frétta­blaðið og kvaðst ekki vita hvernig þeir hefðu komist yfir PIN-númerið.

Bjarni sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði frétt af fleirum sem lentu í sambærilegum svikum. Svör Valitor virðast staðfesta að svo hafi verið.

„Við sjáum reglulega margvíslegar tilraunir til svika hvaðanæva að úr heiminum og náum að verjast nánast öllum,“ segir í svörum Valitor.

Kveðst fyrirtækið vera með öfluga vöktun á öllum kortum í sínum kerfum og að hlutfallslega sé mjög lítið um kortasvik á íslenskum Visa-kortum.

Óprúttnir aðilar hafi þó náð að koma inn færslum á debetkort um síðustu helgi. Þegar slíkt gerist hafi Valitor hins vegar ýmis ráð til að stoppa þá af og lágmarka tjónið. Þetta hafi líka verið gert nú. Búið sé að loka kortunum og korthafar verði ekki fyrir tjóni af þessum sökum.
 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi