Farsóttarnefnd og viðbragðsstjórn Landspítala hefur þungar áhyggjur af boðuðu verkfalli hjúkrunarfræðinga sem hefst að óbreyttu næsta mánudag.
Verkfallið geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir starfsemi spítalans og á þann þátt starfseminnar sem lýtur að kórónuveirufaraldrinum, segir í tilkynningu frá Landspítala.
Tveggja og hálfs klukkustunda sáttafundi hjúkrunarfræðinga og ríkisins er lokið en boðað hefur verið til nýs fundar í fyrramálið.
Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna klukkan 14 í dag að mikil röskun verði á starfsemi heilbrigðiskerfisins ef til verkfalls hjúkrunarfræðinga kemur. Hjúkrunarfræðingar hafa borið hitann og þungann af framkvæmd sýnatöku á landamærunum. Kerfið verði að reiða sig á undanþágur ef til verkfalls kemur.