Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sonur Tryggva Rúnars hyggst stefna ríkinu

Mynd með færslu
Tryggvi Rúnar Leifsson, einn sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum Mynd: RÚV
Íslenska ríkið hefur hafnað 85 milljóna bótakröfu Arnars Þórs Vatnsdal sem er sonur Tryggva Rúnars Leifssonar, eins sakborninga í Guðmundar - og Geirfinnsmáli. Bótakröfunni hefur verið hafnað á grundvelli þess að  Arnar Þór var ættleiddur þegar hann var tólf ára, fjórum árum eftir að faðir hans losnaði úr fangelsi. Lögmaður hans segir að ríkinu verði nú stefnt.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Arnar var tveggja ára árið 1985 þegar faðir hans var hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild sína að hvarfi Guðmundar Einarssonar.  Tryggvi Rúnar var síðan sýknaður árið 2018 eftir endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála í Hæstarétti. Hann lést árið 2009 og eftirlifandi eiginkona hans og dóttir fengu samtals 171 milljón króna í bætur í byrjun ársins á grundvelli laga sem voru samþykkt í lok síðasta árs um heimild um bótagreiðslur vegna sýknudómsins.

Kröfu Arnars var beint að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem vísaði málinu til Andra Árnasonar, setts ríkislögmanns.

Lýsir yfir vonbrigðum með forsætisráðherra

Í frétt Fréttablaðsins segir að bótakröfunni hafi verið hafnað um miðjan þennan mánuð og vísað til þess að ættleiddur sonur teljist ekki lengur barn kynföður síns í lagalegum skilningi. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnars, segir í samtali við Fréttablaðið að réttur umbjóðanda síns til bóta sé að sínu mati ótvíræður. Hann lýsir miklum vonbrigðum með Katrínu og segir hana hafa blekkt sig og fleiri þegar hún hafi beygt af í þinginu í fyrra þegar lögin um bótagreiðslurnar voru til umræðu.

Vilhjálmur segir við Fréttablaðið að ljóst sé að ríkinu verði stefnt og að dómstólar muni þá skera úr um rétt Arnars til bóta.