Segir að Trump sé óhæfur til að gegna forsetaembættinu

18.06.2020 - 12:29
epa07067085 US National Security Adviser John Bolton answers reporter's questions in the press briefing room of the White House in Washington, DC, USA, 03 October 2018. Bolton spoke about Iran, as well as about Palestine, saying the latter is a 'so-called state.'  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, segir að Trump sé óhæfur til að gegna embættinu. Hann hafi reynt að fá Kínverja til að aðstoða sig við að ná endurkjöri. Þessu heldur Bolton fram í bók sem á að koma út í næstu viku, en dómsmálaráðuneytið bandaríska freistar þess að stöðva útgáfuna.

Bolton hefur unnið að bókinni síðustu mánuði, allt frá því hann gegndi embætti þjóðaröryggisráðgjafa Trump frá því í apríl 2018 þar til í september í fyrra. Hann hafði áður gegnt ýmsum embættum í tíð fyrri forseta Repúblíkanaflokksins, Ronalds Reagans og Bush-feðga. Bolton segist hafa hætt en hann og forsetann greinir á um starfslokin. Trump segist hafa rekið hann og eftir að það fór að kvisast út hvert efni bókarinnar væri, hefur Trump gagnrýnt Bolton hvar sem hann kemur því við, sagt hann vanhæfan til að gegna embættinu, lygara og önugan bjána. Í viðtali við Fox-fréttastöðina í gær sagði Trump að Bolton mætti ekki birta þessar upplýsingar, og væri því að brjóta lög. 

Bandarískir fjölmiðlar hafa efni bókarinnar undir höndum en Wall Street Journal birti brot úr henni í gær. Þar kemur meðal annars fram að Trump hafi óskað liðsinnis Kínverja til að tryggja endurkjör á fundi sínum með Xi Jinping, forseta Kína, í Japan í fyrra. Að sögn Boltons kvartaði Xi undan gagnrýnendum sínum í Bandaríkjunum. Við því á Trump að hafa sagt að andstaðan væri mikil meðal Demókrata og bað Xi um að tryggja sér sigur í forsetakosningunum í nóvember, skrifar Bolton í bók sinni. Trump hafi lagt áherslu á að bændur gætu ráðið miklu um úrslit kosninganna og því gætu aukin kaup Kínverja á afurðum þeirra, til dæmis hveiti og soya-baunum, haft áhrif á úrslit kosninganna, Trump í vil. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins hafnaði þessu í morgun, og sagði að kínversk yfirvöld skiptu sér ekkert af kosningum í öðrum ríkjum. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi