Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Prófessorar við HR mótmæla afskiptum vegna ráðningar

Mynd með færslu
Þorvaldur Gylfason Mynd: RÚV - RÚv
Félag prófessora við Háskólann í Reykjavík og Rannsóknarráð Háskólans mótmæla pólitískum afskiptum fjármála- og efnahagsráðuneytisins af ráðningu Þorvaldar Gylfasonar í stöðu ritstjóra fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review og taka í einu og öllu undir yfirlýsingu prófessora við ríkisháskóla vegna málsins.

Þetta segir Bjarni Már Magnússon, formaður Rannsóknarráðs HR, en prófessorarnir og Rannsóknarráðið sendu frá sér yfirlýsingu þessa efnis. „Við erum að bregðast við ranghugmyndum um vísindastarf,“ segir hann. „Við vísum annars að öllu leyti í yfirlýsingu Félags prófessora við ríkisháskóla,“ segir Bjarni.

Í þeirri yfirlýsingu, sem send var út í gær, segir meðal annars að vísindastörf grundvallist á frelsi vísindamanna til að velja eigin viðfangsefni og rannsaka þau af hlutlægni með viðurkenndum þekkingaraðferðum. Afskipti ráðuneytisins setji tímaritið niður og sé ráðuneytinu til álitshnekkis.

Þorvaldur Gylfason taldi ráðningu sína sem ritstjóri tímaritsins, sem gefið er út af Norrænu ráðherranefndinni, hafa verið frágengna, en hún var afturkölluð eftir að sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu mælti gegn því á grundvelli pólitískra afskipta Þorvaldar og þátttöku hans í stjórnmálum. 

„Hæfni einstaklinga til starfa á vísindalegum vettvangi, þar með talið ritstjórnarstarfa, ber einkum að meta útfrá þekkingu, reynslu og árangri þeirra í vísindum og fræðum. Vísindamenn geta vissulega verið virkir þátttakendur á ýmsum sviðum samfélagsins, þar með talið á vettvangi stjórnmálanna, og í ýmsum tilvikum er virk samfélagsþátttaka þeirra ávinningur fyrir vísindastarfið um leið og vísindastarfið færir samfélaginu margháttaðan ávinning í formi nýrrar þekkingar og bættra vinnubragða,“ segir í yfirlýsingu prófessora við ríkisháskóla sem prófessorar við HR taka nú undir.