Opna bandaríska risamótið verður með breyttu sniði

epa06977583 Serena Williams of the US hits a return to Magda Linette of Poland on the first day of the US Open Tennis Championships the USTA National Tennis Center in Flushing Meadows, New York, USA, 27 August 2018. The US Open runs from 27 August through
 Mynd: EPA

Opna bandaríska risamótið verður með breyttu sniði

18.06.2020 - 17:18
Forráðamenn bandaríska tennissambandsins tilkynntu í dag að Opna bandaríska risamótið muni fara fram í New York í ágúst þrátt fyrir að erfitt hafi reynst að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum í Bandaríkjunum. Ákvörðunin um að halda mótið í Bandaríkjunum þykir umdeild.

Fyrr í sumar var greint frá því að alþjóðleg keppni í tennis myndi ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagi í september. Nú hefur þó verið ákveðið að halda Opna bandaríska frá 24. ágúst eins og upphaflega stóð til. Mótið verður þó með breyttu sniði.

Engir áhorfendur verða viðstaddir og þá verður aðeins keppt í einliða- og tvíliðaleik. Dylan Alcott, sem er margfaldur meistari í hjólastólatennis, hefur gagnrýnt þessa ákvörðun harðlega en keppni í hjólastólatennis verður ekki á dagskránni í ár. 

„Ég hélt að ég hefði gert nóg til að tryggja mér keppnisrétt. Tvöfaldur meistari á US Open og efstur á heimslistanum. En því miður skortir mig það eina sem skiptir máli; að geta gengið. Ógeðsleg miðsmunun,“ sagði Dylan Alcott á Twitter-síðu sinni í dag.

Serena Williams hefur staðfest komu sína en fjölmargir leikmenn hafa gagnrýnt ákvörðunina um að halda mótið í New York ofan í kórónuveirufaraldurinn. Novak Djokovic, Nick Kyrgios, Rafael Nadal og Simona Halep hafa öll sagt að það hefði verið mun betra að halda mótið í Evrópu þar sem faraldurinn virðist víða vera í rénun.