Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Offramboð á Airbnb-íbúðum keyrir niður leiguverð

18.06.2020 - 12:23
Drónamyndir.
 Mynd: RÚV
Lækkun leiguverðs er að stærstum hluta til komin vegna offramboðs á íbúðum sem voru í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Hvort leiguverð heldur áfram að lækka veltur að miklu leyti á hvort ferðaþjónustan tekur við sér á ný.

Samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár hefur leiguverð lækkað um 4,3 prósent undanfarna þrjá mánuði og nemur árslækkun 0,2 prósentum. Vignir Már Lýðsson, hagfræðingur hjá Leiguskjóli, segir lækkunina skýrast af miklum fjölda Airbnb-íbúða sem komu inn á markaðinn þegar covid-faraldurinn hófst og ferðamenn hættu að koma til landsins.

Selja íbúðirnar ef ferðamenn koma ekki

Eigendur þessara íbúða hafi sett þessar íbúðir á leigumarkað á lægra verði en gengur og gerist. Flestir þessara leigusamninga séu hins vegar til skamms tíma og það bendi til þess að vilji þeirra standi til að koma íbúðunum sem fyrst aftur inn á ferðamannamarkaðinn. „Þessar íbúðir eru yfirleitt fullbúnar sem bendir til þess að þetta séu þessar svokölluðu Airbnb-íbúðir. Þessir aðilar sem eru að leigja út þessar íbúðir eru með allt aðra og hærri ávöxtunarkröfu á sitt eigið fé þannig að þetta lága leiguverð er ekki komið til með að vera til langs tíma þar sem þessar íbúðir munu frekar fara á sölu ef að það rætist ekki úr á ferðamannamarkaðnum,“ segir Vignir.

Eftirspurnin sjaldan meiri

Þá eru dæmi um að leigusalar hafi endurnýjað langtímaleigusamninga tímabundið á lægra verði. Sú lækkun er því heldur ekki varanleg. Lægra verð hefur hins vegar haft þau áhrif að eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur sjaldan verið meiri. „Við höfum séð það að eftirspurnin hefur aukist gríðarlega og þegar fólk sér þessi lágu verð þá fara margir af stað sem hafa ekki verið að hugsa sér til hreyfings hingað til. Þetta er kannski fólk sem hefur verið í foreldrahúsum, leigja með öðrum eða annað.“

Magnús Geir Eyjólfsson