Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mér er nóg boðið eftir 38 ára starf“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Göngudeildin er ekki á undanþágulista Landspítalans en mannauðsstjóri segir að sótt verði um undanþágu skelli verkfallið á. Hjúkrunarfræðingur sem fréttastofa tók tali eftir félagsfund sagði að hún væri í fyrsta skipti á nærri fjörutíu ára ferli hlynnt verkfalli.

Tveggja og hálfs klukkustunda sáttafundi hjúkrunarfræðinga og ríkisins er lauk á öðrum tímanum í dag en boðað hefur verið til nýs fundar í fyrramálið. Að óbreyttu hefst verkfall á mánudaginn klukkan átta.

„Við erum ekki bara ómissandi þegar það er neyð“

Hjúkrunarfræðingar héldu félagsfund í dag til að ræða stöðuna í kjaraviðræðum og boðaðar verkfallsaðgerðir. Fréttastofa ræddi við Þórunni Marsilíu Lárusdóttir, hjúkrunarfræðing á Landspítala og Mörtu Jónsdóttur, formann hjúkrunarráðs Landspítala að loknum fundi. „Ég kaus með verkfalli núna í fyrsta skipti,“ segir Þórunn.

Af hverju? „Af því nú er mér nóg boðið eftir 38 ára starf og vil bara fá í rauninni laun í samræmi við mína menntun og mitt starf,“ segir hún.

„Það sem hjúkrunarfræðingar vilja er að fá laun til samræmis við menntun og ábyrgð. Það er mikilvægt að hugsa það að við erum ekki bara ómissandi þegar það er neyð í gangi í samfélaginu. Við erum hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu, alltaf, og munum vera það áfram,“ segir Marta Jónsdóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítala.

Stjórnendur Landspítala hafa þungar áhyggjur

Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítala hafa þungar áhyggjur af boðuðu verkfalli hjúkrunarfræðinga sem geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir starfsemi spítalans. „Það er ljóst að það verður mjög mikil skerðing á þjónustu. Við munum í rauninni fresta öllu sem hægt er að fresta,“ segir Ásta Bjarnadóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs.

Munu biðja um undanþágur fyrir COVID-göngudeildina

Landspítali muni halda úti nauðsynlegri þjónustu þrátt fyrir boðað verkfall. Um helmingur hjúkrunarfræðinga Landspítala mun starfa áfram á undanþágum. „Því til viðbótar munum við senda inn viðbótar beiðnir um undanþágur frá verkfalli til að geta haldið úti nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu til dæmis í tengslum við COVID-veikindi.“

Er COVID-deildin á undanþágu sem neyðarþjónusta? „Ekki ennþá - enda var undanþágulistinn settur saman á síðasta hausti fyrir árið í ár. Við munum að sjálfsögðu biðja um undanþágu þar enda starfsemi COVID-göngudeildarinnar aftur komin í gang með nýjum smitum í samfélaginu,“ segir hún.

Ásta segir að það liggi ekki fyrir hvort loka þurfi deildum en biðlistar muni lengjast komi til verkfalls. „Í gegnum COVID-faraldurinn þurftum við að fresta mjög miklu af skipulögðum aðgerðum og göngudeildarþjónustu. Sú þjónusta mun aftur skerðast og kannski meira en önnur í verkfalli.“