Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mæta vongóð til fundar: „Sitjum eins lengi og þarf“

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
„Við sitjum við eins lengi og þarf og eins lengi og árangursríkt er,“ sagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari fyrir sáttafund ríkisins og hjúkrunarfræðinga sem hófst klukkan ellefu. Það eru aðeins fjórir dagar í boðað verkfall hjúkrunarfræðinga sem hefst að óbreyttu klukkan átta á mánudagsmorgun.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags hjúkunarfræðinga, átti fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í morgun áður en samningafundurinn hjá ríkissáttasemjara hófst. Guðbjörg vildi ekki greina frá því hvað þær Katrín ræddu, þegar fréttastofa náði tali af henni.

Nú styttist í verkfall, hefur þú trú á að deilendur nái saman fyrir það? „Við munum gera okkar besta og mætum vongóð til fundar. Samninganefndirnar hafa unnið vel saman og samtalið við borðið er mjög opið og gott. Hins vegar er engin launung á því að þetta er ákaflega þungt og erfitt mál og við verðum að spyrja að leikslokum og sjá hvernig þetta vinnst,“ segir Aðalsteinn.

Félag hjúkrunarfræðinga segir í tilkynningu að síðasti fundur, sem var á mánudaginn, hafi verið tíðindalítill og enn beri mikið á milli um launin. Félagið hefur boðað til tveggja félagsfunda í dag á Grand hóteli í Reykjavík um stöðu kjaraviðræðna og verkfall. Það er því ljóst að undirbúningur verkfalls er í fullum gangi. Verkfallið tekur til 2.600 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu um allt land.

Fréttin hefur verið uppfærð.