Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Látinn kvitta fyrir boðunarbréf þó enginn þekki manninn

18.06.2020 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fjölskyldu Hilmars Braga Bárðarsonar brá þegar boðunarmaður með fyrirkall og ákæru bankaði upp á hjá þeim á þriðjudag. Ákæran var á hendur manni sem þau höfðu aldrei heyrt á minnst en syni Hilmars Braga, sem var einn heima, var gert að kvitta fyrir móttöku ákærunnar sem var vegna hraðaksturs.

Hilmar Bragi greinir frá atvikinu á Facebook-síðu sinni og er ekki sáttur við að boðunarmaðurinn geti afhent „bara einhverjum“ kæruna og látið hann kvitta fyrir móttöku.

„Hinn ákærði hefur ekki hugmynd um að hann eigi að mæta fyrir dómara 23. júní nk. á Sauðárkróki. Er það virkilega svona sem kerfið virkar á Íslandi? Sonur minn spurði svo hvað hann ætti að gera við þessa pappíra og fékk svarið að hann mætti henda þeim eftir 23. júní! Eiga boðunarmenn ekki að hafa uppi á réttum aðilum? Þetta er eiginlega bara alveg fáránlegt!“ segir Hilmar Bragi í færslu sinni.

Galli á núverandi kerfi

Ákæran kom frá Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra og fyrirkallið frá Héraðsdómi Norðurlands vestra. 

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og fjölmiðlafulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir þetta óneitanlega vera galla á núverandi kerfi. Samkvæmt lögum dugar lögreglu að birta boðunarbréf á lögheimili viðkomandi, þó sá hinn sami búi ekki þar.

„Yfirleitt eru þeir sem þar búa tengdir ákærða og þess vegna hægt að birta boðunina heimilismanni,“ segir hann. Svo er hins vegar ekki alltaf og ekkert kemur í veg fyrir að einhver geti skráð sig með lögheimili á heimili einhvers annars án þess að viðkomandi hafi hugmynd um að það hafi verið gert, líkt og virðist hafa gerst í þessu tilfelli.

Lögum samkvæmt ber sá sem tekur við bréfinu í framhaldi ábyrgð á að ná í þann sem ákæran beinst gegn og getur sá hinn sami átt sekt yfir höfði sér geri hann það ekki.

Stefán Vagn telur engar líkur á að þessu ákvæði verði beitt og segir að svo virðist sem hugsun laganna hafi ekki náð til atviks sem þessa. Það sé að sínu mati eitthvað sem þurfi að skoða.

„Þetta er vont fyrir alla,“ segir Stefán Vagn en ítrekar að farið hafi verið að lögum. „Það er eðlilegt að fólki sé misboðið, því það er ekki gott að hafa þetta með þessum hætti.“  Að hans mati sé þetta fyrirkomulag sem þurfi að breyta, en það geri enginn nema löggjafinn.