Krabbameinsráðgjafi ráðinn í fyrsta sinn á Austurlandi

18.06.2020 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - Eftir undirritun í dag
Þeir sem veikjast af krabbameini á Austurlandi fá aukna þjónustu í heimabyggð eftir að sérstakur ráðgjafi Krabbameinsfélags Íslands tekur til starfa í fjórðungnum. Félagið ásamt aðildarfélögum á Austurlandi, Fljótsdalshéraði og Heilbrigðisstofnun Austurlands skrifuðu undir samning þess efnis í morgun. Starfsmaðurinn sinnir ráðgjöf við krabbameinsgreinda og aðstandendur og einnig forvörnum.

,,Við teljum að það sé mjög mikilvægt að þeir sem greinast af krabbameini og eru veikir og aðstandendur þeirra eigi jafnan aðgang að þjónustu hvar sem þeir búa á landinu. Það er í auknum mæli verið að veita krabbameinsmeðferðir hér á Austurlandi og þess vegna vill Krabbameinsfélagið gera sitt til þess að tryggja fólki á þessu svæði aðgang að svipaðri þjónustu og þegar er í Reykjavík og á Akureyri. Og svo verður hægt að stórefla forvarnarstarf á svæðinu líka í tengslum við Fljótsdalshérað sem heilsueflandi samfélag," segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

,,Heilbrigðisstofnun Austurlands mun útvega húsnæði og skrifstofuaðstöðu fyrir viðkomandi starfsmann enda skiptir máli að það séu tengsl á milli þessa starfsmanns og þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem eru síðan að sinna heilbrigðishluta meðferðar krabbameinssjúklinga. Ég fagna því mjög að Krabbameinsfélag Íslands, það öfluga félag, hafi komið að máli við Heilbrigðisstofnun Austurlands um þetta samstarfsverkefni, segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands. 

,,Þegar maður fer suður til meðferðar þá er dagskráin yfirleit þéttbókuð og erfitt að ætla að ætlað að fara í einhverja svona hluti á meðan á því stendur þannig að það er gott að geta fengið þjónustuna heima og sótt þetta í rauninni á milli meðferða. Þannig að gera fengið alla svona aukaþjónustu í heimbyggð er náttúrulega bara frábært", segir Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða.

 

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi