
Kortavelta í maí jókst á milli ára
Í Hagsjá segir að velta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu hér á landi hafi numið 82 milljörðum króna í maímánuði. Þegar óvissa vegna COVID-19 hafi verið sem mest, í mars og apríl, hafi samdráttur verið í kortaveltu samanborið við árið í fyrra. Í mars nam hann 7% og í apríl tæp 13%.
Kortavelta Íslendinga í fataverslunum jókst um 18% á milli ára í maí eftir samdrátt í mars og apríl og velta tengd menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfi jókst um rúm 50% milli ára.
63,3% minni kortavelta erlendis
Velta innlendra greiðslukorta í útlöndum var tæpir 7 milljarðar í maí, það var 63,3% minni velta en í maí í fyrra miðað við fast gengi. Í apríl var velta kortanna í útlöndum um 6 milljarðar og samdrátturinn þá var 67% á milli ára. Á þessum tíma voru mörg landamæri lokuð og fáir Íslendingar á ferð utanlands og því megi gera ráð fyrir að þessa velta erlendis hafi verið í formi netverslunar.
Kortavelta á snyrtistofum í maí í ár var 77% meiri en í sama mánuði í fyrra og er það rakið til lokana á slíkri þjónustu í apríl.