Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kærður fyrir líkamsárás á starfsmann Matvælastofnunar

18.06.2020 - 15:24
Höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi.
 Mynd: RÚV
Maður sem talinn er hafa slegið eftirlitsmann Matvælastofnunar tvisvar með hækju hefur verið kærður til lögreglu fyrir ofbeldi í garð opinbers starfsmanns. Þetta kemur fram í tilkynningu stofnunarinnar.

Í tilkynningunni segir að tveir starfsmenn Matvælastofnunar hafi komið á eftirlitsstað og í kjölfarið orðið fyrir hótunum af hálfu mannsins. Annar starfsmannana hafi svo verið sleginn með hækju. 

Að sögn Hjalta Andrasonar, upplýsingafulltrúa Matvælastofnunar, er starfsmaðurinn ekki alvarlega slasaður eftir árásina. 

Meintur árásarmaður hefur áður verið kærður til lögreglu fyrir árás á starfsmann stofnunarinnar. Í tilkynningunni kemur fram að Matvælastofnun hafi ítrekað haft afskipti af hundahaldi mannsins. Tilefni umræddrar heimsóknar hafi þó ekki verið eftirlit með manninum, heldur nágrönnum hans. 

Hjalti segir að árásir eða hótanir um ofbeldi í garð starsfmanna Matvælastofnunar séu undantekningalaust kærðar til lögreglu. 

Kveðið er á um ofbeldi og hótanir um ofbeldi í garð opinberra starfsmanna í almennum hegningarlögum. Hámarksrefsing slíkra brota er sex ára fangelsisvist.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV