Eins og greint var frá í fréttum RÚV í vetur neyddist fjölskyldan til að flytja að heiman í desember vegna bensínlyktar sem lengi var búin að ágerast á heimili þeirra við Suðurbraut 6 á Hofsósi. Í ljós kom að olíutankur við afgreiðslustöð N1 handan götunnar lak, og hafði gert í einhvern tíma.
Tankurinn var loks fjarlægður í síðustu viku og nú er unnið að því að flytja burt mengaðan jarðveg.Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra tók sýni úr tveimur húsum í vor vegna lekans.
Ánægð að hafa flutt strax út
Í fundargerð eftirlitsins frá 29. maí segir að íbúðarhús fjölskyldunnar að Suðurbraut 6 sé óíbúðarhæft. Þá er einnig lögð áhersla á að hreinsa jarðveg við Suðurbraut 10, en þar er veitingastaður til húsa sem hefur þurft að vera lokaður vegna lyktarinnar.
„Hjá okkur er staðan þannig að við erum að reyna að lofta út og svona, en það gengur illa þar sem sandurinn smýgur alls staðar inn á móti. Og það er sandur úti um allt, en við erum líka bara mjög ánægð hafa tekið þá ákvörðun í desember að hlusta á okkar eigið innsæi og flytja út,“ segir Valdís Brynja Hálfdánardóttir sem býr að Suðurbraut 6.