Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Húsið dæmt óíbúðarhæft eftir bensínlekann á Hofsósi

18.06.2020 - 16:01
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson / RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Hús fimm manna fjölskyldu á Hofsósi var í síðasta mánuði dæmt óíbúðarhæft vegna leka í olíutanki handan götunnar. Þau þakka fyrir að hafa ákveðið að flytja strax út í desember.

Eins og greint var frá í fréttum RÚV í vetur neyddist fjölskyldan til að flytja að heiman í desember vegna bensínlyktar sem lengi var búin að ágerast á heimili þeirra við Suðurbraut 6 á Hofsósi. Í ljós kom að olíutankur við afgreiðslustöð N1 handan götunnar lak, og hafði gert í einhvern tíma. 

Tankurinn var loks fjarlægður í síðustu viku og nú er unnið að því að flytja burt mengaðan jarðveg.Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra tók sýni úr tveimur húsum í vor vegna lekans.

Ánægð að hafa flutt strax út 

Í fundargerð eftirlitsins frá 29. maí segir að íbúðarhús fjölskyldunnar að Suðurbraut 6 sé óíbúðarhæft. Þá er einnig lögð áhersla á að hreinsa jarðveg við Suðurbraut 10, en þar er veitingastaður til húsa sem hefur þurft að vera lokaður vegna lyktarinnar.

„Hjá okkur er staðan þannig að við erum að reyna að lofta út og svona, en það gengur illa þar sem sandurinn smýgur alls staðar inn á móti. Og það er sandur úti um allt, en við erum líka bara mjög ánægð hafa tekið þá ákvörðun í desember að hlusta á okkar eigið innsæi og flytja út,“ segir Valdís Brynja Hálfdánardóttir sem býr að Suðurbraut 6.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Hjónin Rúnar Þór Númason og Valdís Brynja Hálfdánardóttir að Suðurbraut 6.

Gefinn kostur á að lofta út með búnaði

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, segir í skriflegu svari til fréttastofu að unnið sé að hreinsun á svæðinu. Nú þegar sé búið að fjarlægja 200 rúmmetra af jarðvegi og enn eigi eftir að skýrast hversu umfangsmiklar aðgerðirnar verða og þar með kostnaður. Þá segir hann að eigendum þeirra húsa sem hafi orðið fyrir mengun sé boðið að lofta út með búnaði sem sannað hafi gildi sitt. 

„Við teljum að það þurfi að fara alla leið í rót vandans og fjarlægja jarðveginn, því það mun alltaf vera lykt og við þurfum alltaf að díla við þetta vandamál ef ekki verður farið og hreinsað almennilega og gert þetta almennilega. Það hlýtur að þurfa að hreinsa allan mengaðan jarðveg, við trúum ekki öðru,“ segir Valdís.

Fyrir hjónunum sé húsið í raun verðlaust, þar sem ekki er hægt að búa í því, leigja það út né selja í þessu ástandi.

„Við erum svolítið ennþá í óvissunni, hálfu ári síðar. Sem er sorglegt.“