Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gæti hlaupið og gosið á næstu vikum eða mánuðum

18.06.2020 - 19:43
Innlent · eldgos · grímsvötn · Hlaup
Mynd: Skjáskot / RÚV
Hlaup gæti orðið í Grímsvötnum á næstu vikum eða næstu mánuðum, sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur í kvöldfréttum. Hann sagði að slíkt hlaup yrði að öllum líkindum lítið, því Grímsvatnahlaup séu ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Hlaup getur leyst eldgos úr læðingi. Magnús Tumi sagði að áhrif af eldgosum í Grímsvötnum séu alla jafna ekki mikil, en þau geti þó haft áhrif á flug. Hann sagði ólíklegt að gos yrði jafn öflugt og árið 2011.

„Vatnsborðið fer hækkandi og hækkar núna um þrjá sentímetra á dag. Þetta getur verið á næstu vikum og þetta gæti verið á næstu mánuðum,“ sagði Magnús Tumi um hugsanlegt hlaup. Vísindaráð Almannavarna fundaði í dag um stöðuna í Grímsvötnum. Margt bendir til þess að hlaup hefjist á næstunni og vísbendingar eru um að eldstöðin í Grímsvötnum sé reiðubúin að gjósa á ný. Þar varð síðast eldgos árið 2011.

Magnús Tumi sagði að kvikuhólfið í Grímsvötnum virðist liggja nokkuð grunnt. Því geti það gerst við hlaup að þakið á kvikuhólfinu bresti og við það verði eldgos. Um það eru sjö, átta dæmi á síðustu 200 árum.

„Það er náttúrulega alls ekki víst að það verði nokkuð gos. Við vorum nokkuð viss um að það kæmi gos 2010 en það gerði það ekki. Svo kom gos 2011 og það var mjög stórt. Það gos var það stærsta sem komið hefur í Grímsvötnum í 140 ár,“ sagði Magnús Tumi. „En það eru yfir 20 gos sem hafa orðið á síðustu 200 árum. Langflest Grímsvatnsgos eru ekki stór, svona meðalstór, og áhrifin ættu ekki að vera mikil. Kannski eitthvert gjóskufall utan jökulsins, sem væri náttúrulega ekki skemmtilegt á þessum tíma, og svo náttúrulega gæti orðið truflun á flugumferð. Venjulega myndi það ekki vera mikið meira en þetta. Það gæti í versta falli orðið eins og 2011 en það er ólíklegt.“

„Hlaupið yrði lítið, að öllu jöfnu. Grímsvatnahlaup eru ekki svipur hjá sjón miðað við það sem var vegna þess að aðstæður hafa breyst þar, það getur ekki safnast fyrir mikið vatn þar,“ sagði Magnús Tumi.