Fyrrverandi forseti Kasakstans veirusmitaður

18.06.2020 - 16:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Nursultan Nazarbayev, fyrrverandi forseti Kasakstans, er smitaður af kórónuveirunni, að því er greint var frá á vef hans í dag. Tekið er fram að engin hætta sé á ferðum. Hann sinni störfum sínum heima á næstunni.

Nazarbayev verður áttatíu ára í næsta mánuði. Hann lét af forsetaembættinu í júní í fyrra eftir að hafa verið við völd í tæplega þrjá áratugi, allt frá því að landið varð sjálfstætt eftir að Sovétríkin liðu undir lok. Hann sinnir ýmsum störfum þrátt fyrir að vera ekki lengur þjóðhöfðingi. Meðal annars er hann yfirmaður þjóðaröryggisráðs Kasakstans og formaður stjórnarflokks landsins. Þá ber hann titilinn leiðtogi þjóðarinnar.

Fyrr í þessum mánuði bárust af því fréttir að heilbrigðisráðherra Kasakstans væri veirusmitaður, einnig forseti neðri deildar þingsins og talsmaður Tokayevs, forseta landsins.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi