Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Funda vegna stöðunnar í Grímsvötnum

18.06.2020 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Jöklarannsóknarfélag Íslands
Vísindaráð Almannavarna kemur saman til fundar í dag vegna stöðunnar í Grímsvötnum. Mælingar vísindamanna sýna að kvika hafi safnast fyrir í eldstöðinni og kvikuþrýstingur aukist frá því síðast gaus þar árið 2011.

Fimm til tíu ár líða á milli gosa í Grímsvötnum á virknitímabilum. Jarðhiti á yfirborði fer einnig vaxandi og fyrir tveimur vikum mældu starfsmenn Veðurstofunnar brennisteinsdíoxíð í suðvesturhorni Grímsvatna, nærri þeim stað þar sem gaus árin 2004 og 2011. Þetta er í fyrsta sinn sem brennisteinsdíoxíð mælist í svo miklu magni í eldstöð á Íslandi án þess að eldgos sé í gangi og er vísbending um grunnstæða kviku. 

Á vef Almannavarna segir að stæður í Grímsvötnum séu þannig að vatnsborð standi fremur hátt auk þess sem kvikuþrýstingur er hár í kvikuhólfinu undir öskjunni. Því verði að gera ráð fyrir þeim möguleika að eldgos brjótist út í lok jökulhlaups sem gæti orðið á næstu vikum eða mánuðum. Hins vegar sé ekki hægt að slá því föstu að jökulhlaup leiði til eldgoss.

Magnús Geir Eyjólfsson