Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fleiri finna að það þarf að taka á staðalímyndum

18.06.2020 - 20:15
Vörumerkin Uncle Bens og Aunt Jemima heyra brátt sögunni til í núverandi mynd til að ýta ekki undir staðalímyndir svartra. Prófessor í mannfræði segir þetta og niðurrif á styttum í mótmælum síðustu vikna bera vott um samfélag sem hafi ekki horfst í augu við dökka fortíð. Það sé nú að breytast.

Mótmælin gegn kynþáttamisrétti eftir andlát George Floyd í síðasta mánuði hafa birst á ýmsan hátt. Meðal annars hafa styttur af mönnum sem teljast hafa beitt einhvers konar kúgun verið skemmdar eða teknar niður. 

En áhrifin eru víðtækari. Sjónvarpsveitan HBO hefur tekið myndina Á hverfanda hveli úr sýningu þar sem hún þykir sýna þrælahald í heldur jákvæðu ljósi. Fyrirtækið Quaker hefur tilkynnt að hætt verði með pönnukökuduft og síróp undir merkinu Aunt Jemima sem hefur verið selt í yfir hundrað og þrjátíu ár, þar sem það geti ýtt undir staðalímynd af svörtu fólki. Þá hafa framleiðendur Uncle Bens hrísgrjóna tilkynnt að merkinu verði breytt af svipaðri ástæðu.

Löng barátta

Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði segir baráttuna gegn þessum staðalímyndum hafa verið lengi í gangi. Nú sé hún að bera árangur. Hún nefnir sem dæmi langa baráttu fyrir að fjarlægja styttu af Leopold konungi í Brussel. „Í staðinn fyrir að þetta séu róttækar athafnir einhverra sem er ekki fagnað af meirihlutasamfélaginu þá er eins og margar stofnanir, stjórnmálamenn og aðrir séu að horfast í augu við að þetta er eitthvað sem þarf að taka á.“

Kristín segir að gagnrýni um að of langt sé gengið í að taka niður styttur sé tilraun til að þynna umræðuna. „Það er verið að benda á ákveðna mismunun. Stytturnar eru í sjálfu sér ekki ekki vandamálið. Þær eru táknmynd samfélaga þar sem við erum ekki að horfast í augu við þá fortíð sem átti sér stað, og áhrif þeirra í samfélaginu.“

Kristín segir stöðuna hafa breyst á Íslandi frá því umræðan um endurútgáfu Negrastrákanna eftir Mugg varð hávær fyrir rúmum áratug. Þá átti dökkt fólk hér á landi erfitt með að stíga fram, samkvæmt rannsókn sem Kristín gerði sjálf á þeim tíma. „Nú er þetta fólk að stíga fram og segja: Það er rasismi í íslensku samfélagi, þetta er algjörlega óásættanlegt. Það að vera Íslendingur er ekki að vera hvítur. Ég vona svo sannarlega að okkar meirihlutasamfélag hér á Íslandi horfi í eigin barm og hugsi: Svona á þetta ekki að vera. Þessu þarf að breyta.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV