Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fimm ára fangelsi fyrir líkamsárás á dyraverði

18.06.2020 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Arthurs Pawels Wisocki, sem dæmdur var í fimm ára fangelsi fyrir líkamsárás á tvo dyraverði við skemmtistaðinn Shooters fyrir tveimur árum.

Arthur var ákærður fyrir að hafa, í félagi við tvo óþekkta menn, veist að dyravörðum skemmtistaðarins með hnefahöggum og spörkum. Þá hrinti hann öðrum dyraverðinum svo að hann féll niður tvö þrep og réðst á hann með spörkum og hnefahöggum með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut hlaut alskaða á mænu. 

Hann er nú lamaður fyrir neðan olnbogahæð að frátalinni örlítilli hreyfigetu í öðrum þumli og úlnlið. Í dóminum kemur fram að lífsgæði mannsins séu verulega skert og að þau muni vera það til frambúðar. Hann er háður aðstoð annarra við nánast allar athafnir daglegs lífs. 

Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að árásarmaðurinn hafi haft styrkan og einbeittan vilja til líkamsárásar. Hins vegar var ekki talið að honum hafi verið ljóst að afleiðingar árásarinnar myndu verða eins alvarlegar eins og raun bar vitni. 

Arthuri var gert að greiða dyraverðinum sem varð fyrir mænuskaða sex milljónir króna í miskabætur. Dyravörðurinn sem slasaðist minna fær hins vegar 600 þúsund krónur í bætur. 

Hér má finna hlekk á dóm Landsréttar

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV