Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fé beitt á 25.000 ferkílómetra af gróðursnauðu landi

Mynd: RÚV / RÚV
Sauðfé er beitt á um 25 þúsund ferkílómetra land sem er í slæmu ásigkomulagi, gróður lítill sem enginn og landrof mikið. Þetta má lesa úr kortavefsjá sem opnuð var í dag. Kindum er því beitt á gróðursnautt landssvæði á stærð við fjórðung landsins. 

Þótt landið hafi einu sinni verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru þá er skóglendi í algjörum minnihluta á landinu. Landgræðslan kynnti í dag afrakstur þriggja ára vinnu við að kortleggja svæðið. Verkefnið nefndist Grólind og má berja árangurinn augum í kortavefsjá.

Hugmyndin kviknaði í samtali bænda og Landgræðslu. Landinu er skipt í fimm meginflokka eftir ástandi.  

  • Í fyrsta flokki er ástandið verst, mikið landrof og þurrt. 
  • Í öðrum flokki eru lítið af gróðri og mikið rof. 
  • Í flokki þrjú er gjarnan mosavaxið hraun en rofabörð. 
  • Í fjórða flokki eru lítið rof og gróður þó nokkur. 
  • Í fimmta flokki er ástandið best. 

Svo er hægt að sjá hvernig landið skiptist upp milli þessara ástandsflokka. Dökkgrænt táknar gróðursælustu svæðin en rauði liturinn sýnir svæði þar sem landrof er mikið. 

Sauðkindin þarf sína næringu og því er fróðlegt að sjá hvar hún fer um og bítur gras. 

  • Landgræðslan hefur látið girða af rúma tvö þúsund ferkílómetra og þangað mega kindur ekki fara. 
  • Þá hafa rúmir átta þúsund ferkílómetrar verið friðaðir í gegnum gæðastýrða sauðfjárrækt. 
  • Hátt í sex þúsund ferkílómetrar eru friðaðir fyrir beit.
  • Þá eru tæpir tíu þúsund ferkílómetrar þar sem lítið er um fé.
  • En langstærstur hluti er yfirráðasvæði sauðkindarinnar. Beitarland nær yfir rúma 63.000 ferkílómetra. 

„ Nú erum við komin með verkfæri. Við erum komin með gögnin á aðgengilegt form þannig að hver sem er getur farið þarna inn, skoðað svæðið, sér hvernig ástandið er, séð hvar beitarsvæðin eru,“ segir Bryndís Marteinsdóttir, verkefnastýra Grólindar.

Landbúnaðarráðherra er ánægður sem vefsjána.

„Hún breytir mjög miklu. Hún gerir okkur kleift að taka umræðuna um þessi mál út frá staðreyndum frekar heldur en eingöngu tilfinningabundna umræðu,“ segir Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra (D).

Í ljós kemur að þegar landið allt er skoðað eru 45% þess í tveimur lægstu flokkunum - því er landrof þar mikið og gróður lítill eða enginn. Ef einungis beitarland er skoðað kemur í ljós að 39% þess lenda í tveimur lægstu flokkunum. Það er að segja, sauðkindinni er beitt á um 25.000 ferkílómetra lands þar sem gróður er lítill sem enginn og landrof mikið. Rétt er þó að taka fram að kortavefsjáin greinir ekki frá því hversu margt fé er inni á hverju svæði en þeim upplýsingum verður bætt við fljótlega.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Trausti Hjálmarsson, formaður sauðfjárbænda í Árnessýslu og stjórnarmaður í Landssamtökum sauðfjárbænda, fagnar kortavefsjánni. Bændur hafi lengi kallað eftir þessum upplýsingum. Mikilvægt að fá upplýsingar um það hverju landgræðsla bænda hefur skilað. Töluverð vinna fari í að græða upp rofabörð. „Við ætlum að hugsa stórt og til langs tíma. Það er langtímamarkið okkar sauðfjárbænda að standa vel að þessum hlutum og ég treysti því að við fáum landgræðslufólk með okkur í þetta verkefni,“ segir Trausti. Þá sé einnig mikilvægt að fá upplýsingar um hversu mikið álag af sauðfjárbeit er á hverju beitarsvæði.