Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fáninn á of stuttri stöng við friðlýsingu Geysis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Athöfn um friðlýsingu Geysissvæðisins fór fram í gær þegar umhverfisráðherra skrifaði formlega undir friðlýsinguna. Íslenska þjóðfánanum var stillt upp á stöng við tilefnið. Svo virðist sem ekki hafi verið farið að fánareglum við athöfnina. Þjóðfáninn var á of stuttri stöng miðað við stærð fánans. 

Áhugafólki um þjóðfánann brá nokkuð í brún við að sjá sjónvarpsfrétt í gærkvöld um friðlýsinguna þar sem blaktandi tjúgufáni var á fánastöng sem var heldur stutt í annan endann. 

Í fánalögum segir að þjóðfánann skuli draga að húni á þar til gerðri stöng. Reglur um notkun fánans má finna á vef forsætisráðuneytisins. Eins og gera má ráð fyrir eru þær mjög nákvæmar. Þar er skýrt hvenær og hvernig megi flagga og hvenær ekki, hvernig eigi að brjóta fánann saman, hnýta hann á skip, bera hann og hvar má stilla honum upp.

Þá er sérkafli um fánastöng og fánastærð. Þar segir að þegar fánastöng sé reist á jörðu skuli leitast við að hafa hlutfall milli stærðar fána og lengd fánastangar við hæfi. Breidd fánans þ.e.a.s. sú hlið, sem er upp við stöngina, skal vera einn fimmti hluti af lengd stangarinnar. Stöngin, sem fáninn var á við friðlýsinguna, var rétt rúmlega tvöföld breidd fánans - þ.e. meira en helmingi styttri en hún ætti að vera. Leyfilegt er að hafa fánastangir á húsum styttri en þá skal stöngin vera tvisvar og hálfu til þrisvar sinnum lengri en breidd fánans. Burðarstöng skal vera þrisvar sinnum lengri en fánabreiddin. 

Ekki náðist í fánasérfræðing forsætisráðuneytisins fyrir hádegi. Fánastöngin var fengin að láni í utanríkisráðuneytinu samkvæmt upplýsingum umhverfisráðuneytisins. Og í utanríkisríkisráðuneytinu er fáninn og stöngin notaður þar innandyra samkvæmt upplýsingum þaðan. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra flytur ávarp við friðlýsinguna á Geysissvæðinu í gær.