Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einn Rúmenanna með íslenska kennitölu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Ellefu Rúmenar hafa verið sektaðir fyrir að brjóta gegn sóttvarnalögum og ákveðið hefur verið að vísa tveimur þeirra úr landi. Þá er einn þeirra þriggja Rúmena sem handtekinn var fyrir þjófnað úr verslunum á Suðurlandi með íslenska kennitölu.

Fjórtán Rúmenar eru í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg í Reykjavík. Fólkið sætir gæslu fyrir að hafa rofið sóttkví. Maður og kona úr þessum hópi eru með COVID-19. Þau eru við þriðja mann grunuð um þjófnað úr verslunum á Suðurlandi. Maðurinn er með íslenska kennitölu og hefur því verið búsettur hér. Hann var þó nýkominn til landsins þegar hann var handtekinn fyrir viku.

Mennirnir tveir og konan voru með nokkuð af þýfi í bíl sínum þegar lögregla handtók þau. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að búið sé að finna flestar þær verslanir sem þýfið er úr. Verðmæti þess hlaupi ekki á háum fjárhæðum. Rannsókn málsins sé langt komin. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsakað mál hinna ellefu Rúmenanna sem komu til landsins um svipað leyti. Öllum ellefu hafa verið birtar sektir fyrir brot gegn sóttvarnalögum og eru þær sektir á bilinu 150 til 250 þúsund krónur, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns.

Tveimur úr hópnum hefur verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun á landamærum. Ekki hefur verið ákveðið hvenær embætti ríkislögreglustjóra flytur mennina úr landi. Ásgeir Þór segir að mál hinna níu sé enn í vinnslu og því geti frávísunarúrskurðum fjölgað.